Möguleikar stúdenta í sumar

Stúdentaráð fagnar því að nú er búið að opinbera það sumarnám og þau sumarstörf sem verða stúdentum boðleg sumarið 2021.

Hyggst þú fara í sumarnám má finna frekari útlistun á framboði sumarnáms vef Háskóla Íslands hér.

Opnað verður fyrir umsóknir 17. maí og hefst kennsla þann 1. júní.

Fyrir þá sem vilja vinna í sumar er tilvalið að kynna sér þau störf sem Vinnumálastofnun er nú að auglýsa fyrir alla stúdenta 18 ára og eldri. Það eru um 2500 fjölbreytt störf í boði og má finna frekari upplýsingar um þau á vef Vinnumálastofnunar hér.

Stúdentaráð óskar stúdentum öllum gleðilegt sumar.

Skiptafundur Stúdentaráðsfundur 11. maí 2021

Þriðjudaginn 11. maí fer skiptafundur Stúdentaráðs fram í raunheimum og á Teams kl 17:00. Stúdentaráðsliðum gefst kostur á að sækja fundinn en vegna fjöldatakmarkana er okkur ekki unnt að bjóða gestum. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn, skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is til að geta sent Teams fundarboð.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa þá öllum stúdentum og er þeim því velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Dagskrá fundarins má finna hér.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir í stöðu alþjóðafulltrúa og ritstjóra fyrir starfsárið 2021-2022

Alþjóðafulltrúi

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir stöðu alþjóðafulltrúa starfsárið 2021-2022.

Alþjóðafulltrúa er ætlað að sinna þjónustu við erlenda nemendur við Háskóla Íslands í samstarfi við alþjóðasvið Háskóla Íslands og skrifstofu Stúdentaráðs.

Nánar um starfið:

Alþjóðafulltrúi hefur yfirumsjón með framkvæmd þjónustu skrifstofu Stúdentaráðs fyrir erlenda nemendur og hefur það hlutverk að gæta hagsmuna þeirra, auðvelda þeim að gerast virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu, svara fyrirspurnum og veita aðra aðstoð.

Alþjóðafulltrúi er trúnaðarmaður erlendra nemenda við Háskóla Íslands og skal veita viðtöl, símaþjónustu og svara tölvupóstum eftir þörfum þeirra. Í samvinnu við skrifstofu alþjóðasviðs hefur alþjóðafulltrúi milligöngu um að verða erlendum nemendum úti um tengilið (mentor) úr hópi nemenda Háskóla Íslands. Þá aðstoðar alþjóðafulltrúi skrifstofu alþjóðasviðs við skipulagningu viðburða, s.s móttöku erlendra nemenda og Alþjóðadaga Háskóla Íslands. Auk þess tekur alþjóðafulltrúi þátt í daglegum störfum skrifstofu Stúdentaráðs í samráði við forseta ráðsins.

Alþjóðafulltrúi starfar einnig sem fulltrúi stúdenta innan alþjóðlega samstarfsnetsins Aurora. Hann hefur umsjón með verkefnum þar, starfar með tengiliðum Aurora innan Háskóla Íslands og aðstoðar við verkefni sem þau fela honum. Hann sér einnig um undirbúning fyrir ráðstefnur og fleiri viðburði tengdum Aurora og tekur þátt eins og við á.

Staða alþjóðafulltrúa er tveggja ára gömul og því mikilvægt að einstaklingurinn sem tekur við henni sé hugmyndaríkur og tilbúinn að vinna með Stúdentaráði að því að móta stöðuna frekar.

 

Æskilegt er að alþjóðafulltrúi uppfylli eftirfarandi hæfniskilyrði:

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta auk virkrar þátttöku í háskólasamfélaginu
  • Þekking og reynsla af alþjóðastarfi er kostur
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur
  • Þekking á Aurora samstarfsnetsins er kostur
  • Reynsla af viðburðastjórnun er kostur
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Geta til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku
  • Önnur tungumálakunnátta er kostur
  • Reynsla af stefnumótun er kostur
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt

 

Alþjóðafulltrúi er 50% staða og er hann ráðinn til eins árs með möguleika á áframhaldandi starfi. Viðkomandi þarf að geta hafið störf 1. júní 2021. Nánari upplýsingar um starfið má finna hjá Emily Reise, núverandi alþjóðafulltrúa, á internationalcommittee@hi.is eða shi@hi.is.

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og upplýsingum um umsagnaraðila skal skila í gegnum tölvupóst á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is merkt „Alþjóðafulltrúi SHÍ 2021-2022.“

Umsóknarfrestur rennur út 14. maí 2021, klukkan 13:00. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar.

 

 

Ritstjóri

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir stöðu ritstjóra Stúdentablaðsins starfsárið 2021-2022.

Nánar um starfið:

Ritstjóri hefur yfirumsjón með útgáfu Akademíunnar sem gefin er út í byrjun skólaársins og Stúdentablaðsins sem gefið er út fjórum sinnum á skólaári, tvö blöð á hvoru misseri. Nánari tímasetning fer eftir ákvörðun ritstjóra og skrifstofu Stúdentaráðs. Ritstjóri aðstoðar við auglýsingasöfnun en framkvæmdastjóri Stúdentaráðs hefur yfirumsjón yfir henni sem og rekstri blaðsins.

Ritstjóri skipar í ritstjórn og stýrir störfum hennar. Ritstjóri er einnig ábyrgur fyrir því að birta efni úr Stúdentablaðinu á heimasíðu Stúdentablaðsins og sér um dreifingu blaðsins.

 

Æskilegt er að ritstjóri uppfylli eftirfarandi hæfniskilyrði:

  • Þekking og áhugi á málefnum stúdenta
  • Reynsla af fjölmiðla- og útgáfustörfum
  • Reynsla af grafískri hönnun er kostur
  • Góð almenn tölvukunnátta
  • Þekking á vefumsjón er kostur
  • Gott vald á íslenskri og enskri tungu
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
  • Vilji til að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsmönnum skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins
  • Menntun sem nýtist er kostur

Ritstjóri er ráðinn í 20% vinnu yfir tímabilið 1. júní 2021 til 1. september 2021 og hlutfallið eykst í 30% yfir tímabilið 1. september 2021 til 1. júní 2022. Upphaf starfstíma getur þó verið sveigjanlegur eftir samkomulagi.

Nánari upplýsingar um starfið má fá hjá Hólmfríði Maríu Bjarnardóttur, núverandi ritstjóra Stúdentablaðsins, á studentabladid@hi.is eða shi@hi.is.

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og upplýsingum um umsagnaraðila skal skila í gegnum tölvupóst á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is merkt „Ritstjóri Stúdentablaðsins 2021-2022“. Auk þess er æskilegt að sýn umsækjanda á Stúdentablaðinu og hugmyndir um útgáfur á starfstímabilinu komi fram, og sýnishorn af vinnu sinni ef viðkomandi hefur gegnt ritstörfum áður.

Umsóknarfrestur rennur út 14. maí 2021, klukkan 13:00. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar.