Annáll Stúdentaráðs 2021

Hvort árið hafi liðið hratt eða hægt er ég raunar ekki viss um. Það er mér aftur á móti alveg ljóst að árið hefur verið sannkallað rússíbanareið og Stúdentaráð verið með mörg járn í eldinum, á tímum sem hafa leyft okkur mjög fátt. 

Fyrsti mánuður ársins boðaði bjartan blæ og vorum við á skrifstofu Stúdentaráðs ásamt stjórnendum og öðru starfsfólki skólans jákvæð gagnvart misserinu. Stúdentar voru byrjaðir að mæta í Vatnsmýrina og Háskólatorgið naut sín gríðarlega vel þegar mjög ófyrirsjáanlegt og óþarft – ætla ég að leyfa mér að segja – flóð teygði sig yfir í heilar fimm byggingar háskólans. Vatnstjónið var áfall sem við máttum ekki við vegna þess að rúmgóðu stofurnar urðu ónothæfar auk þess að Félagsvísindasvið missti húsnæði sitt í Gimli. Enn ein áskorunin sem við erum ennþá að takast á við.

Af miklum krafti fór Stúdentaráð þó af stað með herferðina „Eiga stúdentar ekki betra skilið?“ sem snerist að sjálfsögðu um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta og hækkun grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna. Herferðin byggði á gögnum sem skrifstofa Stúdentaráðs hefur annað hvort aflað sér sjálf eða stutt sig við. Umfjöllunarefnið náði eyru þingmanna sem vitnuðu í skrif okkar og spurðust fyrir um viðbrögð forsætisráðherra við fjárhagsstöðu stúdenta í pontu Alþingis. Herferðin hlaut heilt yfir góðar undirtektir í hinni almennri samfélagslegri umræðu og á Alþingi.

Í tilefni aldarafmælis Stúdentaráðs árið 2020 var fjögurra þátta sería um Stúdentaráð sýnd í ríkisútvarpinu og bar heitið Baráttan – 100 ára saga Stúdentaráðs“. Markmiðið var að kjarna 100 ára sögu hagsmunabaráttu stúdenta sem hefur sett svip sinn á samfélagið frá því að stúdentar gengu fyrst til kosninga um sín eigin heildarsamtök í desember árið 1920. Afraksturinn fór fram úr okkar björtustu vonum og erum við gríðarlega þakklát Háskóla Íslands, RÚV, Ingileif Friðriksdóttur, Guðmundi Einari og öllum sem eiga í hlut, fyrir að hjálpa okkur við að láta hugmyndina verða að veruleika. 

Þættirnir hvöttu okkur til dáða og sigldum við inn í mars mánuð af heilum hug. Á landsþingi LÍS lögðu fulltrúar Stúdentaráðs fram ályktun til samþykktar um fjárhagslega stöðu stúdenta sem gefin var út. Samstaða stúdentahreyfingana á landsvíssu skipti öllu máli en hún hafði verið einkennandi í gegnum faraldurinn. Reglulega höfðu hreyfingarnar fundað með mennta- og menningarmálaráðherra sem kom sér t.a.m. vel þegar hertar aðgerðir vegna fjölda smita í samfélaginu voru boðaðar á ný á vormisserinu. Á þeim fundi óskuðu fulltrúar Stúdentaráðs sérstaklega eftir því að geðheilbrigðismálin yrðu sett í forgang, enda sýndu niðurstöður kannana okkar að ástandið væri að hafa þungbær áhrif á stúdenta. Staðreyndin er nefnilega sú að eftirspurnin eftir sálfræðiþjónustu við Háskóla Íslands hefur verið umfram getu til að koma til móts við hana. Þessu var fylgt eftir með formlegu erindi á fundi með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins sem skilaði allt að 100 milljóna stuðningi í málaflokkinn á háskólastiginu. Það liggur fyrir að nýr sálfræðingur hefur verið ráðinn í hálft stöðugildi ásamt því að fleiri geðheilbrigðisúrræðum hefur verið bætt við. Það er mikið framfaraskref og í fullkomnum takt við áherslur Stúdentaráðs.

Rétt fyrir áramót óskaði skrifstofan eftir upplýsingum um aðkomu Háskóla Íslands að rekstri spilakassa í gegnum Happdrætti Háskóla Íslands. Stjórn ráðsins sammældist um að málið yrði skoðað vandlega þar sem það væri viðkvæmt og í framhaldinu átti skrifstofan í góðum samskiptum við rektorsskrifstofu. Í kjölfar tillögu á Stúdentaráðsfundi í mars, sem sneri að því að beita þrýstingi á skólann, lagði skrifstofan til að sérstakur upplýsingafundur yrði haldinn þannig að Stúdentaráð gæti fengið viðeigandi gögn og upplýsingar frá fagaðilum og öðrum hagaðilum. Sá fundur fór fram í byrjun apríl og var breytingartillaga skrifstofunnar samþykkt, um að Stúdentaráð ályktaði um málið á grundvelli þeirra upplýsinga sem það fékk á fundinum, þeirrar vinnu sem lá þegar fyrir, sem og vitneskju um nýskipaðan starfshóp rektors sem forseti átti sæti í. Fyrirliggjandi gögn voru umfangsmikil og því unnið upp úr þeim með faglegum hætti til að tryggja Stúdentaráði málefnalega afstöðu. 

Með fyrstu verkefnum nýs Stúdentaráðs eftir kosningar var að gagnrýna ný samþykktar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022, sem innihéldu engar breytingar á grunnframfærslu framfærslulána. Ákvörðun ráðherra að þess í stað fela hópi ráðuneytisstjóra að koma með farsæla lausn á því máli skilaði að lokum engum varanlegum breytingum. Mikilvægur áfangi náðist þó á öðrum stöðum þegar alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs var kjörinn forseti Aurora stúdentaráðsins. Það eru þrjú ár síðan staða alþjóðafulltrúa var sett á fót til að gæta hagsmuna erlendra nema og á þeim tíma hafa leitað til okkar nemendur sem reyna að fóta sig í samfélaginu okkar. Sum fá ekki inngöngu í læknanámið því þau þekkja ekki nafnið á þjóðarblómi Íslendinga og önnur fá ekki leyfi til að nota orðabók í prófi á þeim forsendum að gæta þurfi jafnræðis. Alþjóðafulltrúi og hagsmunafulltrúi hafa tekið höndum saman gegn þessu viðmóti sem verður að tækla með markvissum hætti.

Þá var verkefnastjóri ráðinn á skrifstofuna yfir sumartímann til að afla upplýsinga um réttindi stúdenta innan velferðarkerfisins. Ákveðið var að skoða sérstaklega kjör og réttindi stúdenta á húsnæðismarkaði og gera því skil í skýrslu sem verður gefin út í byrjun næsta árs. Út frá sömu leiðarljósi um faglegheit í starfi var ákveðið að stefnumótunarferðin yrði að þessu sinni umfangsmeiri þannig að hægt væri að uppfæra framkvæmdaáætlanir fastanefnda en einnig hefja vinnu við heildarstefnu ráðsins. Skrifstofan starfar í umboði Stúdentaráðs eftir samþykktum yfirlýsingum, ályktunum, tillögum, umsögnum o.fl. hverju sinni. Tilgangurinn með mótun heildarstefnu er hins vegar að eiga til áþreifanlega afstöðu Stúdentaráðs í lykilmálefnum á sama tíma og ákveðið svigrúm er tryggt til að ráðið þróist í takt við breytingar og framfarir úr umhverfi sínu. –

Ýmis mál eru þess eðlis að afstaða Stúdentaráðs fer ekki á milli mála. Því var ekki vandasamt að ráðast í aðra herferð fyrir alþingiskosningarnar í september. Hún bar heitið „Stúdentar eiga betri skilið“ og lagði áframhaldandi áherslu á nauðsyn þess að ráðast í markvissar aðgerðir til að sporna gegn erfiðri fjárhagslegri stöðu stúdenta. Starfshópur var stofnaður sem sá um að skipulagningu ásamt því að halda utan um m.a. pallborð á Fundi fólksins og samantekt um kosningaáherslur stjórnmálaflokkana í málefnum stúdenta. Þá tóku forseti Stúdentaráðs og rektor Háskóla Íslands höndum saman við að vekja athygli á mikilvægi háskólamenntunar og undirfjármögnun háskólastigsins. Ríkisstjórnarbreytingar hafa áhrif á forgangsröðun verkefna og við þær gefst tækifæri til að taka upp ný mál samhliða því að önnur njóti áframhaldandi stuðnings. Stúdentaráð er bjartsýnt á að nýir ríkisstjórn ráðherrar þeirra málaflokka sem snerta stúdenta leggi upp úr góðu samráði við stúdentahreyfinguna að sameiginlegum markmiðum. 

Í október var nýja viðbyggingin við Gamla garð vígð að viðstöddum fulltrúum og velunnurum háskólasamfélagsins. Þannig bættust við 69 leigueiningar fyrir stúdenta á horni Hringbrautar og Sæmundargötu. Nýi samkomusalurinn þar fékk heitið Stúdentabúð í tilefni aldarafmælisins og prýðir þar listaverk tileinkað hagsmunabaráttu stúdenta. Húsnæðismálin hafa verið eitt helsta baráttumál stúdenta og var aðkoma stúdenta árið 2017 lykilatriði í því að nýi Gamli garður fékk að rísa. Fyrir þann slag á Ragna Sigurðardóttir, forseti Stúdentaráðs 2017-2018, miklar þakkir skilið. Samofin starfsemi Háskóla Íslands, fleiri stúdentaíbúðir, heildstæður þjónustukjarni og grænir samgöngumátar á að vera sameiginlegt framtíðarmarkmið okkar. Þess vegna voru viðræður um kaup á Hótel Sögu, sem stóðu yfir í tæpt ár, stúdentum mjög hugleikin. Tilkynnt var um kaup á Bændahöllinni þann 22. desember sl. Stúdentaráði til mikillar ánægju en húsnæðið verður nú loksins nýtt undir starfsemi Háskóla Íslands og Félagsstofnunnar stúdenta. Menntavísindasvið mun flytjast á miðháskólasvæðið og 113 nýjar stúdíóíbúðir bætast við í norðurhluta byggingarinnar. Háskólasamfélag í praktík! Því næst þurfum við að beina sjónum okkar að fjölgun grænna svæða, viðráðanlegum kjörum í almenningssamgöngur fyrir stúdenta og starfsfólk og að fá hér inn lágvöruverðsverslun. Möguleikarnir eru endalausir því framtíð háskólasvæðisins felur í sér frekari uppbyggingu með sjálfbærni að leiðarljósi, stúdentum og starfsfólki til hagsbóta.

Oft krefjast áherslur okkar umræðu á breiðari vettvangi sem getur tekið tíma. Við hins vegar aðlögumst því eftir bestu getu t.a.m. varðandi kennslumálin, með breytingar á innri uppbyggingu kennslumálanefndar til þess að halda betur utan um m.a. rafrænar lausnir, þak á gildi prófa, tilhögun sjúkra- og endurtökuprófa, prófnúmer og eflingu fjarnáms. Hugmyndir um fjölbreyttari kennsluaðferðir og námsmat eiga ekki að vera fjarstæðukenndar lengur og við skuldum okkur sjálfum að láta reyna á breytingar og taka áhættur, ekki vegna þess að við erum þess tilneydd heldur vegna þess að í því felast fjölda tækifæra. Þá er atvinnuleysisbótakrafan löngu komin til að vera eða þangað til að við sjáum breytingar, en um þessar mundir stendur einmitt yfir heildarendurskoðun á atvinnuleysistryggingalögunum og höfum við tryggt að okkar raddir heyrist þar. Við höldum einnig áfram að setja spurningamerki við skrásetningargjöld opinbera háskóla og veltum því upp, helst í háskólaráði, hvort þau rúmist innan ramma laganna um opinbera háskóla með hliðsjón af reglum Háskóla Íslands. Stúdentaráð hefur einnig endurvekið samstarf við önnur hagsmunafélög innan Háskólans vegna ókyngreindra salerna í byggingum skólans.

Félagslífið hefur því miður verið ábótavant þrátt fyrir að skrifað hafi verið undir nýjan samning vegna Októberfest en hátíðinni varð að fresta. Ákveðið var að vísindaferð í Stúdentaráð yrði breytt í fimm vísindaferðir eftir fræðasviðum þannig að hægt væri að bjóða fleirum til okkar. Þá tókst okkur í samstarfi við World Class að bjóða stúdentum og starfsfólki afslátt af kortum í heilsuræktarstöðina í Vatnsmýrinni, og í samstarfi við Hugrúnu geðfræðslufélag var miðlað fræðsluefni og bjargráðum til stúdenta á þriðju COVID-litaða misserinu sínu. 

Lengi mætti telja verkefnin á borði skrifstofunnar því hlutverk Stúdentaráðs er í grunninn að sækja hagsmuni tæpra sextán þúsund stúdenta og í mörgum tilfellum stúdentahópsins í heild sinni. Það þýðir að okkur ber að vera ákveðin, veita öflugt aðhald, benda á vankanta og vera gagnrýnin en líka að sýna frumkvæði og útsjónarsemi. Í starfi sem þessu verður skilningur og virðing að vera í forgrunni. Stúdentaráð bindur vonir við að ofangreind mál sem og önnur brýn hagsmunamál stúdenta hljóti þann hljómgrunn sem þau eiga skilið á komandi ári.

Bestu óskir um gæfuríka nýja tíma og hjartans þakkir fyrir samstarfið á árinu kæru stúdentar, stúdentaráðsliðar og aðrir velunnarar Stúdentaráðs.

Isabel Alejandra Díaz,
Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Kaup fest á Hótel Sögu undir starfsemi Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta

Stúdentaráð fagnar þeim sögulega áfanga sem náðst hefur með kaupum ríkisins og Félagsstofnunar stúdenta á Bændahöllinni, að öðru nafni Hótel Sögu, sem verður nú loksins nýtt undir starfsemi Háskóla Íslands og stúdentaíbúðir. Mikil tilhlökkun ríkir fyrir að fá Menntavísindasvið á miðháskólasvæðið og sömuleiðis fyrir að sjá aukið húsnæðisframboð fyrir stúdenta með rúmlega 110 nýjum stúdíóíbúðum í nágrenni við háskólann.

Hugmynd þessi sem kviknaði innan háskólasamfélagsins boðaði ný tækifæri til að samþætta háskólasvæðið, sameina stúdentahópinn og auka við þjónustu á svæðinu.

Stúdentaráð færir því háskólasamfélaginu innilegar hamingjuóskir og horfir bjartsýnis augum fram á við, því framtíðin felur í sér frekari uppbyggingu með sjálfbærni að leiðarljósi, stúdentum og starfsfólki til hagsbóta.

Stúdentaráðsfundur 16. desember 2021

Fimmtudaginn 16. desember fer Stúdentaráðsfundur fram í O-101 kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
  4. Kynning á Félagsstofnun stúdenta (Kynning og umræður) 17:20-18:00
  5. Hlé 18:00-18:10
  6. Ársreikningur Stúdentaráðs 2020-2021 (atkvæðagreiðsla) 18:10-18:25
  7. Tillaga um fæðingarstyrk námsmanna (atkvæðgreiðsla) 18:25-18:40
  8. Önnur mál 18:40-18:50
  9. Fundi slitið 18:50

Inga Huld tilnefnd til félaga ársins af Stúdentaráði

Stúdentaráð tilnefndi Ingu Huld Ármann til félaga ársins 2021, á vegum Landssambands ungmennafélaga (LUF). Félagi ársins eru hvatningaverðlaun sem meðlimur innan aðildarfélags LUF hlýtur fyrir vel unnin störf á árinu. Allir sem eru tilnefndir hljóta viðurkenningu og er einn úr hópnum valinn sem Félagi ársins og hlýtur farandbikar LUF.

Inga Huld er stúdentaráðsliði og meðlimur sviðsráðs á Verkfræði- og nátturuvísindasviði ásamt því að vera forseti kennslumálanefndar Stúdentaráðs og sitja þar með í kennslumálanefnd háskólaráðs. Inga beitir sér af mikilli fagmennsku og alúð fyrir málefnum stúdenta hvort sem það er innan fræðasviðsins eða miðlægu stjórnsýslunnar. Kennslumálin eru ein grunnstoð hvers háskóla og það er gríðarlega mikilvægt að hafa þar sterkan einstakling að verja hagsmuni stúdenta.

Hamingjuóskir með viðurkenninguna kæra Inga Huld okkar!

 

Mynd tekin af heimasíðu LUF.

Vertu eldklár á þínu heimili!

Árlegt forvarnarátaki HMS og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fór í gang 1. desember og mun vara út desember.

Unnið hefur verið viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff, háskólanema, sem brenndist alvarlega þegar eldsvoði kom upp í íbúð í Mávahlíð árið 2019 og deilir hún lífsreynslu sinni með okkur til að efla umræðuna á sviði forvarna. Stúdentaráð deilir gjarnan skilaboðunum áfram.

Verum ELDKLÁR saman og uppfyllum atriðin á gátlistanum hér fyrir neðan:

  • Reyksynjara í öll herbergi
  • Heimilisfólk þekki flóttaleiðir út af heimilinu
  • Slökkvitæki eiga að staðsett við útgang og flóttaleiðir
  • Eldvarnateppi aðgengileg og sýnileg í eldhúsi
Myndbandið er hægt að nálgast hér.

Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff from Húsnæðis- og mannvirkjastofnun on Vimeo.

Opið fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs.

Umsóknareyðublaðið má finna hér og hvetjum við ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega og kostur er eftir leiðbeiningunum. Frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur jafnframt til að kynna ykkur sjóðinn og sérstaklega lög og reglur hans. Greiningarstyrkir og framfærslustyrkir verða veittir í þessari úthlutun.

Tekið er við umsóknum til 12:00 þann 16. desember 2021. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá.

Spurningum skal vísað til Maríu Sólar Antonsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Fullveldisdeginum fagnað

Innilegar hamingjuóskir með fullveldisdaginn, hátíðardag stúdenta! Skrifstofa Stúdentaráðs fór þennan fallega morgun, ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur aðstoðarrektor vísinda, að leiði Jóns Sigurðssonar og lögðu þar blómakrans líkt og hefð er fyrir.

Í tilefni dagsins flutti Sara Þöll Finnbogadóttir varaforseti eftirfarandi hugvekju fyrir hönd Stúdentaráðs.

Þegar Stúdentaráð var stofnað í desember árið 1920, var Háskóli Íslands til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Með samþykki forseta Alþingis, gaf háskólaráð leyfi fyrir því að stúdentar háskólans fengju til afnota Kringlu sem lestrarstofu. Er það afbragðs dæmi um sameiginlegan skilning og samstarfsvilja sem stúdentar og Háskólinn hafa átt í tímana rás. Á hundrað og tíundasta afmæli Háskóla Íslands er viðeigandi að vitna í  tilkynninguna sem Rektor sendi stúdentum varðandi daginn í dag, sjálfan fullveldisdaginn, sem er einmitt líka hátíðisdagur stúdenta. „Barátta Jóns forseta fyrir sjálfstæði Íslendinga er í raun samofin baráttunni fyrir stofnun Háskóla Íslands. Þetta tvennt verður ekki aðskilið. Við erum iðulega upptekin af andránni – því sem er í deiglunni – enda er það okkur nauðsynlegt til að takast á við þær áskoranir sem fylgja samtímanum og um leið útgangspunktur ferðar okkar inn í framtíðina. En við megum ekki gleyma öllum þeim sem færðu okkur af litlum efnum í fortíðinni lykilinn að því sem við njótum í nútímanum.“

Öflug hagsmunabarátta stúdenta hefur átt sér stað við Háskóla Íslands og á hún sér formlega 101 ára sögu Frá upphafsárum Stúdentaráðs hefur mikið vatn runnið til sjávar og er óhætt að segja að hreyfingin hafi orðið að kröftugu afli sem berst fyrir stúdenta af alúð og eljusemi. Árið 1957 fengu stúdentar einn fulltrúa í háskólaráð, þar sem í dag sitja tveir fulltrúar stúdenta. 1967 voru ný lög um námslán sett, en í gegnum árin hefur námslánakerfið verið eitt helsta baráttubmáli stúdenta. Stúdentar hafa staðið fyrir fjölda mótmæla vegna þeirra bágra kjara sem þeim bjóðast og ávallt mætt undirbúin til leiks. Félagsstofnun stúdenta stofnuð árið 1968, ein grundvallareining háskólasamfélagsins sem hefur í gegnum árin veitt stúdentum húsnæði, leikskóla fyrir börn þeirra fæði og bækur til gagns og gaman. Þá hófst árið 1971 óhefðbundin og pólitísk barátta stúdenta, grundvölluð í grasrótarstarfsemi, nýjar hugmyndir um hlutverk námsmanna spruttu upp, stúdentar komu þá úr flestum stéttum og höfðu fjölbreyttari hugmyndafræðilegan og félagslegan bakgrunn en áður hafði tíðkast.

Þessi tímamót eiga hins vegar ekki einungis heima í sögubókunum. Baráttan og sigrarnir sem hafa áunnist eru ekki sjálfsagðir hlutir. Breytingar verða ekki að raunveruleika á einum degi, stundum taka þær nokkra daga og stundum  nokkur ár – en grundvallaratriði er að hafa að leiðarljósi þrautseigju og útsjónarsemi til að tryggja að baráttan fjari ekki út. Líkt og Jón Sigurðsson sem stóð fastur á sínu og krafðist breytinga, munu stúdentar halda áfram að láta til sín taka eftir gildum jafnréttis, heiðarleika og ekki síst róttæknis. Það er þess vegna, á þessari stundu þegar við erum komin með nýja ríkisstjórn, kórónuveirufaraldurinn enn viðvarandi og stúdentahreyfingin er að berjast fyrir réttlátari og varanlegri kjörum stúdenta, sem er mikilvægt fyrir háskólasamfélagið að standa saman. 

Á nýju ári bindur stúdentahreyfingin miklar vonir við að raunverulegt og virkt samráð við stúdenta eigi sér stað, því þeir eru stærstu hagsmunaaðilar menntunar, eins og íslenska þjóðin var stærsti hagsmunaaðili sjálfstæðisbaráttunnar, og ber að hlusta á þau.