Sumarið 2021 lagði skrifstofa Stúdentaráðs til samþykktar ráðsins að verkefnastjóri yrði ráðinn yfir sumartímann við að afla upplýsinga og gagna um réttindi þessa hóps innan velferðarkerfisins og þannig fá betri mynd af stöðu þeirra við mismunandi félagslegar aðstæður. Féll það vel að þeim verkefnum sem þegar voru inn á borði Stúdentaráðs í þessum efnum, t.a.m. upplýsinga- og gagnaöflun ráðsins um kjör stúdenta innan námslánakerfisins, atvinnutækifæri og réttindi á vinnumarkaði. Nanna Hermannsdóttir var ráðin verkefnastjóri á skrifstofu Stúdentaráðs og hafði umsjón með allri upplýsinga- og gagnaöflun í samráði við skrifstofuna. Nanna er útskrifaður hagfræðingur úr Háskóla Íslands og meistaranemi í sama fagi við Háskólann í Lundi. Hún hefur áður stundað meistaranám í norrænum velferðarkerfum í háskólanum í Halmstad og í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum.
Húsnæðismálin eru einn stærsti málaflokkur í hagsmunabaráttu stúdenta og Stúdentaráði því ávallt ofarlega í huga, enda er húsnæðisöryggi meðan á námi stendur grundvallaratriði. Uppbyggingin háskólasvæðisins er þegar í góðum farveg og miðar að þéttara skipulagi með áherslu á sameiningu háskólastarfseminnar, aukið húsnæði og framboð á þjónustu og grænar tengingar og samgöngur. Vegna þessa var ákveðið að skoða sérstaklega kjör og réttindi stúdenta á húsnæðismarkaði og gera því skil í útgefinni skýrslu. Markmið hennar er að greina og bera saman almenna leigumarkaðinn og stúdentagarða, greina húsnæðisbyrði stúdenta og kanna rétt þeirra til opinbers húsnæðisstuðnings á vegum bæði ríkisins og sveitarfélaga með hliðsjón af viðbótarláni Menntasjóðs námsmanna vegna húsnæðiskostnaðar. Í skýrslunni fylgja einnig tillögur að úrbótum í málaflokknum sem Stúdentaráð fer fram á að teknar séu til skoðunar.
Skýrsluna í heild sinni má finna hér.
Stúdentar á húsnæðismarkaði
Húsnæðiskostnaður er einn stærsti útgjaldaliður heimila og á það ekki síður við um stúdenta. Ungt fólk og tekjulágir eru töluvert líklegri en aðrir hópar til þess að vera á leigumarkaði, samkvæmt gögnum Hagstofunnar um stöðu á húsnæðismarkaði eftir tekjum og aldri. Það felur í sér minna húsnæðisöryggi og hærri húsnæðiskostnað í samanburði við að eiga fasteign.
Stúdentar eru að jafnaði með lægri launatekjur en aðrir hópar og því sérstaklega viðkvæmir fyrir mikilli hækkun á leiguverði. Viðbótarlánið sem Menntasjóður námsmanna veitir stúdentum vegna húsnæðiskostnaðar tekur ekki mið af raunverulegri hækkun húsnæðiskostnaðar. Nú þegar teljast 43% stúdenta á Íslandi vera með íþyngjandi húsnæðiskostnað samkvæmt Eurostudent VII, en það er tæplega fjórfalt hærra hlutfall en meðal allra Íslendinga. Í því samhengi ber að nefna að stúdentar skiptast innbyrðis í mismunandi hópa í mismunandi stöðu sem hver og einn getur borið ólíkar skuldbindingar og búið við gjörólíkar aðstæður.
Mat á húsnæðisbyrði stúdenta var framkvæmt út frá hóflegum forsendum um viðmiðunar stúdentinn og leiguverð á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að viðmiðunar stúdentinn sé á leigumarkaði og greiningunni er skipt eftir tegund íbúða og eftir því hvort leigt er af stúdentagörðum eða á almennum leigumarkaði. Ráðstöfunartekjur eru heildartekjur heimilisins eftir skatta að meðtöldum greiðslum úr félagslega kerfinu. Þá var einnig tekin með upphæð námslána, þrátt fyrir að almennt sé ekki litið á lán sem ráðstöfunartekjur. Húsnæðisbætur eru dregnar frá leigukostnaði (sbr. útreikningar Hagstofunnar á húsnæðisbyrði) og eru því ekki teknar með í ráðstöfunartekjur þrátt fyrir að vera greiðslur úr félagslega kerfinu.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að margir námsmenn séu með íþyngjandi húsnæðiskostnað í samræmi við Eurostudent IV. Staðan er tilkomin vegna lágra ráðstöfunartekna hópsins, en hafa ber í huga að meirihluti þeirra ráðstöfunartekna sem miðað er við í þessari skýrslu er lán en ekki tekjur eða bætur úr félagslega kerfinu. Hér er því notast við óhefðbundna skilgreiningu á ráðstöfunartekjum. Þrátt fyrir það bendir flest til þess að viðmiðunar stúdent sem er einstæður greiði að jafnaði húsnæðiskostnað sem annaðhvort nálgast það eða einfaldlega telst vera íþyngjandi húsnæðiskostnaður. Staða stúdenta á húsnæðismarkaði verður því að teljast áhyggjuefni.
Fjárhagslegur stuðningur hins opinbera til stúdenta er háður ýmsum skilyrðum sem setur annars svipaða stúdenta í mjög ólíka stöðu. Þetta misræmi skapast aðallega af tveimur ástæðum. Önnur þeirra er sú að almenna húsnæðisstuðnings kerfið gerir strangari kröfur til húsnæðis á almennum markaði en til sambærilegra íbúða á stúdentagörðum. Hin ástæðan er sú að möguleiki á stuðningi er mismunandi eftir því hvar stúdentar búa og hvar þeir hafa lögheimilisskráningu, en sérstakur húsnæðisstuðningur er bæði breytilegur milli sveitarfélaga og háður því að aðsetur og lögheimili sé í sama sveitarfélagi. Þar sem réttindi til félagslegra greiðslna eru oftar en ekki bundin atvinnuþátttöku einstaklings falla námsmenn oft milli glufa í kerfinu og verða að reiða sig á sérútbúnar undanþágur í lögum og reglugerðum, þar sem nám er almennt ekki ígildi atvinnuþátttöku.
Þrátt fyrir uppbyggingu stúdentagarða síðustu ár er enn langt í að stúdentar geti gengið að íbúð á stúdentagörðum sem sjálfsögðum hlut. Vísitala leiguverðs hefur hækkað um 41% á síðustu fimm árum, á sama tíma og viðbótarlán Menntasjóðs námsmanna vegna húsnæðiskostnaðar hefur aðeins hækkað um 11%. Sé grunnframfærsla (að viðbættum barnastyrk, þar sem það á við) og viðbótarlán vegna húsnæðis borin saman sést að kerfið gerir í raun ráð fyrir að stúdentar beri íþyngjandi húsnæðiskostnað. Það verður að teljast alvarlegt að viðbótarlán sjóðsins vegna húsnæðis taki ekki mið að hækkunum á almennum markaði, þar sem stór hluti stúdenta leigir húsnæði á meðan félagslega rekin úrræði á borð við stúdentagarða anna ekki eftirspurn. Til að tryggja stöðug kjör þarf viðbótarlán vegna húsnæðis að lágmarki að hækka um því sem nemur vísitölu leiguverðs milli ára.
Rétt er að nefna að í skýrslunni er einblínt á stöðu stúdenta við Háskóla Íslands. Lægra leiguverð í grennd við skóla gæti mildað stöðuna í einhverjum tilfellum þar sem verð í grennd við Háskóla Íslands er með allra hæsta móti. Þó er ekki raunhæft að ætla að vandamálið hverfi alfarið að teknu tilliti til þess og ætti því að vera hægt að yfirfæra niðurstöðurnar nokkurn veginn fyrir alla stúdenta á Íslandi.
Það einfalda mat sem farið var í er á engan hátt tæmandi og eru tillögurnar sem Stúdentaráð leggur fram því langt frá því að vera þær einu mögulegu og álitamálin sem skoðuð voru takmarkast við þau allra almennustu. Skýrslan er fyrst og fremst hugsuð sem hvatning til aðgerða fyrir viðeigandi stjórnvöld og brýning til allra þeirra sem koma að ákvarðanatöku um réttindi og lífskjör stúdenta á Íslandi. Ljóst er að af nógu er að taka en þá er líka um að gera að hefjast handa til að koma hlutum í betra horf sem fyrst.