Month: júlí 2022
Vilt þú vinna við að skipuleggja Októberfest 2022?
Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir eftir áhugasömum og duglegum einstaklingi til að taka að sér hlutastarf á vegum SHÍ. Um er að ræða 30% tímabundna stöðu sem snýst alfarið um skipulagningu, markaðssetningu og framkvæmd á Októberfest. Starfstímabil hefst 25. júlí og lýkur 15. september.
Helstu verkefni og ábyrgðarsvið:
- Samskipti við verktaka
- Umsjón með markaðsmálum í samráði við SHÍ
- Almennt utanumhald um Októberfest af hálfu SHÍ
- Samantekt og skýrsla eftir hátíð
Hæfniskröfur:
- Reynsla af viðburðastjórnun
- Reynsla af markaðsstörfum
- Góð samskiptahæfni, skipulagshæfni og sjálfstæð vinnubrögð
- Áhugi og þekking á Stúdentaráði æskileg
Einstaklingurinn er ráðinn í hlutastarf á meðan ráðningartímabilinu stendur. Nánari upplýsingar um starfið fást hjá réttindaskrifstofu Stúdentaráðs í síma 570-0850 eða á shi@hi.is
Kynningarbréf ásamt ferilskrá skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: shi@hi.is merkt „Starfsmaður Októberfest SHÍ“. Umsóknarfrestur er til kl. 23:59 þann 17. júlí 2022. Umsóknir sem berast síðar verða ekki teknar til greina.
Ráðning framkvæmdastjóra og ritstýru á skrifstofu Stúdentaráðs
Þau Guðmundur Ásgeir Guðmundsson og Lísa Margrét Gunnarsdóttir hafa bæst í hóp starfsfólksins á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs.
Guðmundur Ásgeir hefur verið ráðin sem nýr framkvæmdastjóri á skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Guðmundur er 25 ára viðskiptafræðinemi við Háskóla Íslands og hefur áður lokið B.Sc. gráðu í bókhaldi frá University of Providence. Guðmundur Ásgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2017 ásamt því að hafa lokið framhaldsprófi í píanóleik árið 2018. Samhliða námi starfaði Guðmundur hjá University of Providence sem píanisti á viðburðum háskólans, sem einkakennari í bókhaldi og glósari fyrir TRIO-center (Students with disabilites). Hann tók einnig þátt í félagsstörfum sem formaður bókhaldsklúbbsins hjá University of Providence.
Guðmundur hefur mikinn áhuga á bókhaldi og endurskoðun og mun menntun hans nýtast vel í starfi framkvæmdastjóra. Hann er öflugur í teymisvinnu og fær í samskiptum, er með getu til að starfa sjálfstætt og vilja til að vinna með Stúdentaráði í heild sinni. Stjórn Stúdentaráðs ákvað vegna þessa að ráða Guðmund Ásgeir Guðmundsson til starfa við réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stöðu framkvæmdasjóra ráðsins.
Lísa Margrét hefur verið ráðin sem ný ritstýra Stúdentaráðs 2022-2023. Lísa er 27 ára nemi við íslenskudeild Háskóla Íslands og mun hún ljúka B.A. gráðu í íslensku með sálfræði sem undirgrein næsta vor. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2015. Starfsemi Stúdentaráðs er Lísu ekki ókunnug en hún hefur setið bæði í jafnréttis- og alþjóðanefnd SHÍ ásamt því að hafa verið meðlimur í sviðsráði Hugvísindasviðs. Lísa var hluti af ritstjórnarteymi Stúdentablaðsins síðastliðið ár þar sem hún skrifaði greinar, kom að því að þýða og prófarkalesa sem og að ritstýra einstaka greinum og færa inn á heimasíðu Stúdentablaðsins.
Lísa er með skýra sýn á hvað hún vill gera sem ritstýra. Hún vill stuðla að því að Stúdentablaðið sé vettvangur þar sem fjölbreyttur nemendahópur Háskóla Íslands getur látið í sér heyra, og færa blaðið nær stúdentum með því að auka innsendar greinar. Lísa vill skipa öfluga ritstjórn og leggja áherslu á gott samstarf við öll þau sem tengjast Stúdentaráði, sem mun svo endurspeglast í starfinu. Sem málgagn allra stúdenta finnst Lísu að Stúdentablaðið ætti að taka mið af þeirri litríku flóru mannlífs sem einkennir háskólasamfélagið.
Stjórn Stúdentaráðs ákvað vegna þessa að ráða Lísu Margréti Gunnarsdóttur til starfa við réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stöðu ritstjóra ráðsins.
Við óskum þeim til hamingju með þessi nýju hlutverk og hlökkum mikið til samstarfsins við að vinna að bættum hag stúdenta!