Opið fyrir umsóknir í þriðju úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir þriðju úthlutun Stúdentasjóðs 2022-2023. 

Umsóknareyðublað er að finna hér og mælum við með að þið kynnið ykkur sjóðinn þar, sérstaklega lög og verklagsreglur hans, áður en sótt er um. Tekið er við umsóknum til 12:00 mánudaginn 13. febrúar 2023. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá. 

Dæmi um styrki sem veittir eru í þessari úthlutun eru ferðastyrkir, ráðstefnustyrkir,  viðburðarstyrkir og félaga- og höfðatölustyrkir fyrir nemendafélög.   

 ATH. framfærslustyrkir og greiningarstyrkir verða veittir í næstu úthlutun.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is

 

Uppgjör haustannar 2022 hjá Aurora

Aurora samstarfsnetið er langtíma samstarf 10 háskóla, sem lagði upp með það að markmiði að auka og dýpka þverfaglegt samstarf háskóla í Evrópu.

Aurora býður upp á ýmis tækifæri fyrir nemendur, sem dæmi má nefna opnar vinnustofur og verkefni á borð við hakkaþon og málstofur sem eru auglýst á samfélagsmiðlum og í gegnum hóppósta, styttri og lengri námskeið í öðrum Aurora háskólum þar sem einingar teljast til gráðunnar í heimaskólanum og samstarfsverkefni sem spanna akademískt ár, t.d. svokölluð Stúdentaskemu (e. Student Schemes) auk þess sem Stúdentaráð Aurora vinnur gegnumgangandi að ýmsum sameiginlegum verkefnum.

Háskólar í samstarfinu eru, auk Íslands, staðsettir á Spáni, Ítalíu, og í Frakklandi, Englandi, Tékklandi, Hollandi, Þýskalandi, Austurríki og Danmörku.

Aurora samstarfið kom upphaflega til vegna sameiginlegra markmiða skólanna og vilja til að starfa saman en hefur, á seinni árum, hlotið fjármagn frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem eitt af 44 háskólasamstörfum í gegnum verkefni sem er á ensku titlað European Universities initiative.

Síðasta önn var afar viðburðarík og því er upplagt að ljúka fyrsta mánuði nýs árs á uppgjöri nokkrum þeirra verkefna sem stúdentar unnu að á haustönn 2022.

Við upphaf síðustu annar var óskað eftir umsóknum nemenda sem höfðu áhuga á að starfa með Aurora í gegnum Stúdentaskemun. Alls bárust yfir 100 umsóknir frá nemendum hinna ýmsu skóla en frá Háskóla Íslands skráðu 25 nemendur sig sem annað hvort Ambassador eða Champion.

Eitt af stærstu verkefnum Aurora á undanförnum mánuðum hefur verið að vinna að umsókn um áframhaldandi fjármagn og nemendur tóku þátt í þeirri vinnu alveg frá upphafi.

Vinnan hófst síðasta sumar og, sem forseti Stúdentaráðs Aurora, sat ég í svokallaðri Editorial Committee sem fundaði reglulega og lagði grunninn að nýju umsókninni.

Í september söfnuðust svo verkefnastjórar allra 10 háskólanna saman í Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn og vörðu tveimur dögum í að ákveða áherslur og verkefni Aurora næstu fjögur árin. Tveir fulltrúar nemenda tóku þátt í þeirri vinnu, forseti og varaforseti Stúdentaráðs Aurora, Alma Ágústsdóttir frá Háskóla Íslands og Hanus Patera frá Palacký Háskólanum í Olomouc.

Vinnan var gegnumgangandi eftir það en næsta stóra verkefni var ekki fyrr en í Nóvember, þegar Stúdentaráð Aurora safnaðist saman í Vrije Universiteit í Amsterdam. Þar funduðu nemendur í tvo daga til að safna saman áherslum sínum sem þau kynntu svo aðstoðarrektorum allra skólanna.

Frá Háskóla Íslands fóru Alma Ágústsdóttir, Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Rebekka Karlsdóttir, Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Aurora Stúdentaráðið í Amsterdam

Ein megináhersla nemenda var að nemendum væri tryggð greidd staða í hverjum skóla fyrir sig, þar sem að þeim þótti ótækt að krefja nemendur sem taka hvað mest á sig fyrir Aurora að gera það eingöngu í sjálfboðastarfi. Slík staða myndi auka jöfnuð og gefa fjölbreyttari hópi tækifæri til að leggja hönd á plóg þar sem að efnahagsstaða nemenda getur gert þeim ómögulegt að taka að sér sjálfboðavinnu, óháð áhuga á starfinu. Nemendafulltrúinn (e. Student Coordinator) myndi þá, meðal annars, bera ábyrgð á því að veita öðrum nemendum sem taka að sér verkefni fyrir hönd Aurora stuðning, styðja við markaðsmál Aurora í hverjum skóla fyrir sig og sitja í Stúdentaráði Aurora.

Þetta skilaði árangri og greidd staða nemendafulltrúa var sett inn í umsókn Aurora um áframhaldandi fjármagn, sem skilað var inn 30. janúar.

Í nóvember fór einnig fram Biannual ráðstefna Aurora, haldin af Universität Duisburg-Essen. Ráðstefnan fór fram á netinu og Stúdentaráð Aurora stóð þar fyrir viðburði í formi heimskaffis um geðheilbrigði (en það er sameiginleg áhersla ráðsins á þessu skólaári) sem bar titilinn Mental Health: Sharing Best Practices. Þar söfnuðust saman nemendur, kennarar og starfsfólk háskólanna innan Aurora samstarfsins og báru kennsl á hvaða framtök í geðheilbrigðismálum væru að skila árangri, á hvaða sviðum skorti stuðning og hvar mætti gera betur. Þessi samráðsvettvangur gerði fólki, þvert á skóla og stöðu, kleift að læra hvort frá öðru og undir lok vinnustofunnar safnaði Stúdentaráð Aurora saman niðurstöðunum sem við munum halda áfram að vinna úr þeim á þessari önn.

Í desember fór svo fram ráðstefna í Tékklandi, haldin af Palacký University Olomouc, undir titlinum European Universities – Future of Higher Education Forum þar sem að fjöldi samstarfsneta sem taka þátt í European Universities framtakinu söfnuðust saman til að ræða framtíð evrópskra háskóla. Þar tók ég til máls um þátttöku nemenda í stjórnskipan og ræddi hvernig gera mætti betur til að nýta krafta nemenda sem allra best.

Alma Ágústsdóttir að kynna nemendaþátttöku í stjórnskipan Aurora

Sömuleiðis söfnuðust rektorar allra 10 Aurora háskólanna saman í Amsterdam í desember til að samþykkja allt það sem fram kom í umsókn Aurora um áframhaldandi fjármagn og ég sat þann fund sem forseti nemenda.

Síðan þá hefur vinnan um skipulagningu næstu fjögurra ára innan Aurora haldið áfram en umsókninni var skilað inn í gær, 30. janúar, og, þar sem ég hef tekið þátt í þeirri vinnu frá upphafi, treysti ég mér fyllilega til að segja að framtíðin hjá Aurora er björt!

Ef þú hefur áhuga á alþjóðastarfi og langar að vita meira um Aurora mæli ég eindregið með að kynna þér vefsíðuna okkar.

Hér má sjá þau námskeið innan Aurora sem hægt er að sækja um á hverjum tíma fyrir sig. Langi þig til að taka þátt í að móta stefnu háskólanna og vinna að þróun hinna ýmsu mála, t.d. umhverfismála, tæknivæðingar og kennsluhátta er enn hægt að skrá sig í Stúdentaskemun hér. Langi þig að fylgjast með opnum tækifærum og vinnu Stúdentaráðs Aurora getur þú fylgt okkur á Instagram.

Yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Háskóla Íslands

Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir enn á ný yfir þungum áhyggjum af fjárhagsstöðu Háskóla Íslands, en í fréttaflutningi hefur komið fram að allt að milljarð vanti upp á til þess að Háskóli Íslands nái endum saman fyrir komandi ár. Ljóst er að vöntun á fjármagni hefur mikil áhrif á grunnstarfsemi skólans, en háskólaráð hefur samþykkt aðhaldsaðgerðir vegna stöðunnar sem fela m.a. í sér niðurskurð í kennslu og stöðvun á ráðningum. Þessu til viðbótar er enn meiri niðurskurður boðaður í fjármálaáætlun fyrir árið 2024.

Þetta er þung staða og þróun í þveröfuga átt við það sem fram kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, um að stefna að sambærilegri fjármögnun háskóla á Íslandi og þekkist á hinum Norðurlöndunum. Stúdentaráð hefur um árabil vakið athygli undirfjármögnun háskólans og afleiðingum hennar, nú síðast í umsögn við fjárlög 2023. Þá hefur forseti Stúdentaráðs ítrekað vakið máls á alvarleika stöðunnar við ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og þeirri staðreynd að fjárveiting til háskólastigsins samræmist ekki þeim áherslum eða markmiðum sem stefnt er að í nýju ráðuneyti háskólamála. Það skýtur skökku við að á sama tíma og kallað er eftir fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum er halli Heilbrigðisvísindasviðs 240 milljónir og sett eru fram markmið um aukið námsframboð í STEAM greinum á sama tíma og Verkfræði- og náttúruvísindasvið hefur þurft að draga verulega úr kennslu vegna fjárskorts.

Háskóli Íslands sinnir þýðingarmiklu hlutverki í íslensku samfélagi og er meðal fremstu háskóla heims, en staðreyndin er sú að vegna skorts á fullnægjandi fjármögnun til að sinna rannsóknum og kennslu hefur skólinn fallið á alþjóðlegum matslistum. Bregðast þarf tafarlaust við og hlúa að grunnstoðum menntakerfisins til að styrkja það til framtíðar. Stúdentaráð tekur undir með háskólaráði og hvetur stjórnvöld til að hraða endurskoðun á reiknilíkani háskóla þannig að fjármögnun til opinberrar háskólamenntunar samræmist samanburðarlöndunum. Tryggja þarf rekstrargrundvöll skólanna og draga úr sveiflum í fjárveitingum með því að auka hlutfall fastrar fjármögnunar og annarrar fjárveitingar sem er ekki jafn breytileg og núverandi þættir reiknilíkansins.  Vanda þarf til verka við sköpun hvata fyrir háskólanna þannig að þeir hvatar sem innbyggðir verða í fjárveitingar þjóni samfélaginu í heild sinni og stuðli sannarlega að auknum gæðum náms og rannsókna. 

Stúdentaráð krefst þess að stjórnvöld standi við lögbundna skyldu sína og stórauki fjárframlög til opinberrar háskólamenntunar. Það skiptir sköpum fyrir íslenskt samfélag, eflir lífskjör, verðmætasköpun og samkeppnishæfni menntakerfisins auk samfélagsins á alþjóðavettvangi.

Stefna Stúdentaráðs vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur birt stefnu sína vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna og tekur um leið undir kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta er snúa að málaflokknum. Samkvæmt bráðabirgðarákvæði í lögunum skulu niðurstöður endurskoðunarinnar kynntar á haustþingi 2023 og leggur Stúdentaráð áherslu á að við endurskoðunina verði kerfið í heild sinni tekið til ítarlegrar skoðunar, í ljósi þess að stúdentar búa enn, í grundvallaratriðum, við ófullnægjandi stuðningskerfi.

Helstu áhersluatriði stefnu Stúdentráðs snúa að jöfnu aðgengi að námi og hlutverki sjóðsins sem félagslegur jöfnunarsjóður. Má þar til dæmis nefna kröfur um að lögfest sé að upphæðir lána séu endurskoðaðar á milli ára, ríkisstyrkir séu auknir og úthlutun þeirra sé þannig háttað að fleiri lántakar eigi kost á að hljóta slíka styrki. Þá krefst Stúdentaráð þess að fyrirkomulag vaxta sé endurskoðað og að undanþágur taki mið af raunverulegum aðstæðum stúdenta.

Stúdentaráð væntir þess að tekið verði tillit til þessara krafa við endurskoðun laganna, enda endurspegla þær sjónarmið stærsta hagsmunaaðila námslánakerfsins, stúdenta. Kröfurnar eru auk þess í samræmi við þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér og koma fram í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 60/2020 sem og lögbundið hlutverk sjóðsins sem félagslegur jöfnunarsjóður og markmið laganna um að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti.

Stefnuna má finna í heild sinni hér: Stefna Stúdentaráðs í tengslum við endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, og í pdf formi með heimildum hér.

 

Fréttir frá Stúdentaráðsfundi 19. janúar 2023

Stúdentaráð fundaði í gær í 7. skipti á þessu starfsári, en ráðið fundar mánaðarlega og eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Forseti Stúdentaráðs stýrir fundum ráðsins og byrjar hvern fund á að fara yfir tilkynningar og helstu mál á döfinni, en það er mikilvægur liður í að tryggja upplýsingaflæði frá skrifstofu Stúdentaráðs til stúdenta. 

Á fundinum kynnti Sigríður Olafsson, Alþjóðafulltrúi LÍS Student Refugees Iceland (SRI) sem hún stýrir ásamt Ernu Benediktsdóttur. Sigríður situr einnig í Stúdentaráði og sinnir því sjálfboðastörfum í þágu stúdenta á ýmsum vettvöngum. SRI er er verkefni sem snýr að því að aðstoða flóttafólk og hælisleitendur við að sækja um nám hérlendis. Hún fór yfir söguna að baki verkefninu, hvernig starfsemin fer fram og hvernig er hægt að taka þátt, en þau eru að leita að fleiri sjálfboðaliðum til þess að taka þátt. Það var fróðlegt að heyra nánar um þetta mikilvæga verkefni og hvetjum við öll sem hafa áhuga og tök á að að skrá sig sem sjálfboðaliða – sjá nánar hér. 

Fjórar tillögur voru lagðar fyrir ráðið og hlutu þær allar einróma samþykki. Var það tillaga um herferð Stúdentaráðs, tillaga um að Stúdentaráð beiti sér fyrir aukinni hinseginfræðslu á Heilbrigðisvísindasviði, tillaga um að Stúdentaráð leggi til breytingar á úthlutunarreglum Félagsstofnunar Stúdenta og tillaga um að Stúdentaráð skrifi undir opið bréf til Sundhallar Reykjavíkur og ÍTR þess efnis að einum inniklefa Sundhallarinnar verði breytt  í fjölskylduklefa. Þessar tillögur verða núna unnar áfram af réttindaskrifstofu Stúdentaráðs, sviðsráðum og fastanefndum SHÍ eftir því sem við á. 

Þá voru teknar fyrir lagabreytingar á lögum Stúdentaráðs, uppfærð lög Stúdentaráðs má finna hér. og framkvæmdastjóri stöðuna á fjárhagsáætlun Stúdentaráðs skv. verklagi. Andri Már Tómasson, stúdentaráðsliði, sagði síðan frá því hver árangurinn af tillögu hans frá nóvemberfundi Stúdentaráðs hefði verið, en hún sneri að því að Stúdentaráð beitti sér fyrir því að fleiri stúdentar myndu skrá persónufornöfn sín á Canvas. Herferðin skilaði góðum árangri en þó eru enn margir stúdentar sem eiga eftir að birta fornöfn sín og lagði Andri til áframhaldandi vinnu í þessum málum.

Að lokum kaus ráðið hver yrði tilnefning Stúdentaráðs í kjöri til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menninga, en auglýst var eftir umsóknum meðal allra stúdenta í HÍ. Fjórar umsóknir bárust og hlaut Isabel Alejandra Díaz, nemi í opinberri stjórnsýslu flest atkvæði. 

Stúdentaráð er stolt af því að tilnefna hana en Isabel hefur mikla reynslu af störfum í þágu ungs fólks, en hún starfaði sem forseti SHÍ frá 2020 – 2022 og sat samhliða því fyrir hönd stúdenta í háskólaráði. Í kynningarbréfi sínu kom Isabel inn á það hvernig reynsla hennar innan SHÍ og HÍ myndi reynast henni í hlutverki sem þessu:

,,Störf mín undanfarin misseri hafa kveikt áhuga minn á menntakerfinu sem slíku og starfsemi hins opinbera. Sérstaklega í ljósi uppstokkunar á mennta- og menningarmálum og stofnun nýs ráðuneytis háskóla sem samtvinnar einkum vísindi og nýsköpunarmál. Aðkoma að stefnumótunarferli HÍ26 á vettvangi háskólaráðs og rektorsskrifstofu jók einnig vitneskju mína í þessum efnum sem og samþættingu þeirra við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.”

,,Ég hef því öðlast viðamikla þekkingu á umsagnar- og greinarskrifum, tillögugerð og málefnastarfi ásamt því að þróa góða framkomu og samskiptalipurð við þar til bær stjórnvöld, ólíka hagaðila og í viðtölum við fjölmiðla. Ég hef mikla ástríðu fyrir þeim málaflokkum sem hér ræðir um en ég tel þá vera meginstólpa íslensks samfélags. Ljóst er að þessi staða ungmennafulltrúa geti verið liður í því að m.a. miðla starfsemi UNESCO til ungs fólks og vera rödd þess gagnvart stjórnvöldum þegar kemur að mennta, vísinda og menningarmálum.”

Isabel Alejandra Díaz

Kjörið sjálft fer svo fram á leiðtogaráðsfundi Landssamtaka ungmennafélaga (LUF) þann 24. janúar nk. þar sem kosið er á milli tilnefninga frá aðildarfélögum LUF og óskum við Isabel góðs gengis. 

Eins og sjá má er af nógu að taka á fundum Stúdentaráðs og eru fundir ráðsins hátt í þrír tímar og þökkum við Joe and the Juice kærlega fyrir að styrkja okkur um samlokur og safa til að tryggja orku fundargesta. Við vekjum athygli á því að þau hafa opnað á Birkimel (við Þjóðarbókhlöðuna og Sögu) og bjóða upp á 50% afslátt af djúsum, sjeikum og kaffi út janúar.

Stúdentaráðsfundur 19. janúar 2023

Fimmtudaginn 19. janúar  fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í stofu HT-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

    1. Fundur settur 17:00
    2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
    3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
    4. Student Refugees Iceland (kynning og umræður) 17:20-17:35
    5. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2022-2023 (kynning og umræður) 17:35-17:50
    6. Tillaga um herferð Stúdentaráðs 17:50-18:00 (atkvæðagreiðsla)
    7. Hlé 18:00-18:10
    8. Lagabreytingartillögur á lögum Stúdentaráðs 18:10-18:50 (atkvæðagreiðsla)
    9. Tillaga um aukna hinseginfræðslu á Heilbrigðisvísindasviði 18:50-19:00 (atkvæðagreiðsla)
    10. Tillaga um breytingar á úthlutunarreglum FS 19:00-19:10 (atkvæðagreiðsla)
    11. Tilnefning Stúdentaráðs í kjöri til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menninga (atkvæðagreiðsla) 19:10-19:20
    12. Önnur mál 19:20-19:30
    13. Fundi slitið

Langar þig að vera fyrsti ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar?

Langar þig að vera fyrsti ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar? Lestu þá lengra!

Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur óskað eftir framboðum til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar. Stúdentaráð Háskóla Íslands er aðildarfélag að LUF og getur sem slíkt boðið fram einn fulltrúa í umboði Stúdentaráðs. Leiðtogaráð LUF kýs svo á milli tilnefninga aðildarfélaganna á fundi ráðsins þann 24. janúar nk. 

Ef þú ert nemandi við Háskóla Íslands getur þú sótt um að vera tilnefning SHÍ ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði: 

  1. Ert á aldrinum 18-27 ára 
  2. Hefur þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
  3. Hefur reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
  4. Býrð yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
  5. Hefur vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
  6. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur.

Ef þetta á við um þig og þú vilt sækja um að vera tilnefning SHÍ, sendu okkur þá kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna þú sækir um stöðuna og hvernig þú telur þig uppfylla skilyrðin hér að ofan á shi@hi.is. Ef umsækjandi verður ekki talinn uppfylla skilyrði umsóknar verður henni vísað frá. Frestur er til og með 17. janúar. 

Ungmennafulltrúi Íslands á sviði mennta, vísinda og menningar er skipaður til tveggja ára og mun þurfa að sækja aðalráðstefnu UNESCO ásamt norrænum samstarfsfundum. Sömuleiðis situr ungmennafulltrúinn í Íslensku UNESCO nefndinni, sem fundar 4-6 sinnum á ári og er nefndarseta launuð. Þurfa frambjóðendur að geta skuldbundið sig til tveggja ára auk þess að sækja alla viðburði sem af þeim er krafist. Embættið er sjálfboðastarf, að dagpeningum erlendis og nefndarsetu í Íslensku UNESCO nefndinni undanskildum.

Umsóknarfrestur fyrir námslán – vorönn 2023

Umsóknarfrestur fyrir námslán fyrir vorönn 2023 er til og með 15. janúar. Nánari upplýsingar má finna á vef Stúdentaráðs: https://student.is/saekja-um-lan. Sjá einnig heimasíðu Menntasjóðs námsmanna: https://menntasjodur.is/namsmenn/namslan/.

Lánasjóðsfulltrúi SHÍ, María Sól Antonsdóttir, tekur við spurningum um umsóknarferlið og námslán almennt.

Netfang: shi@hi.is // mariasol@hi.is

Sími: 695-8894