Stúdentaráðsfundur 14. febrúar 2023

Þriðjudaginn 14. febrúar fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í Fenjamýri, Grósku.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Dagskrá fundarins:

    1. Fundur settur 17:00 
    2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
    3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
    4. Kynning á starfsemi Vísindagarða 17:20-17:35
    5. Kynning á fjarnámi við HÍ 17:35 – 17:50 
    6. Tillaga vegna sérúrræða fyrir stúdenta með erlendan bakrunn 17:50-18:00 (atkvæðagreiðsla)
    7. Tillögur um hvernig auka má kosningaþátttöku 18:00-18:15  (atkvæðagreiðsla) 
    8. Uppfærð Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2022-2023, 18:15-18:25 (atkvæðagreiðsla)
    9. Hlé 18:25-18:35
    10. Kynning á ársreikningi Stúdentaráðs fyrir starfsárið 2021-22, 18:35-18:45
    11. Samgöngu- og bílastæðamál við HÍ 18:45-19:05 
    12. Tillaga um að Stúdentaráð sendi erindi til stjórnar Félagsstofnunar stúdenta vegna aðgengismála á Stúdentakjallaranum 19:05-19:10 (atkvæðagreiðsla)
    13. Tillaga um aukna upplýsingamiðlun til foreldra í námi 19:15-19:25 (atkvæðagreiðsla)
    14. Tillaga að ályktun um Hámu í Sögu og nýju húsi heilbrigðisvísinda 19:25-19:30 (atkvæðagreiðsla)
    15. Tillaga um bætta námsaðstöðu fyrir nemendur á Hugvísindasviði 19:35-19:45 (atkvæðagreiðsla)
    16. Tilnefning Stúdentaráðs í kjöri til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda (atkvæðagreiðsla)  19:45-19:50
    17. Önnur mál 19:50-20:00 
    18. Bókfærð mál 
    19. Fundi slitið

Íþróttaskólinn haustið 2023

Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur!

Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur laugardaginn 7. október.

Íþróttaskóli Stúdentaráðs Haustönn 2023

Stúdentaráð Háskóla Íslands rekur íþróttaskóla fyrir börn stúdenta fædd á árunum 2018-2022. Tímarnir fara fram í íþróttahúsi háskólans við Sæmundargötu á laugardagsmorgnum og er hver tími 40 mínútur. Fyrsti tíminn verður þann 7. október og seinasti tíminn verður þann 25. nóvember. Það verða því 8 tímar í heildina. Börnunum er skipt í tvo hópa eftir aldri og eru ekki fleiri en 25 börn í hverjum hópi. Yngri hópurinn (f. 2021, 2022) er kl. 8:45 – 9:25 en eldri hópurinn (f. 2018-2020) er kl. 9:30 – 10:10. Það verður létt hressing í boði eftir hvern tíma. *Ath að aðeins skráð börn mega taka þátt.

Smelltu hér til að skrá barn í Íþróttaskóla SHÍ vorönn 2023

Markmið íþróttaskólans er að gefa börnum kost á hreyfinámi, efla hreyfiþroska og hreyfigetu barnanna. Bæta samhæfingu, sjálfstraust og vellíðan. Leikir og þrautabrautir skipa stærstan þátt í náminu og reynt að hafa æfingar sem fjölbreyttastar þannig að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Unnið er bæði með fín- og grófhreyfingar. Félagsþroski, samvinna og það að taka tillit til annarra er mikilvægur þáttur í starfinu.

Verðið er 5.000 krónur og veittur er 500 króna systkinaafsláttur fyrir hvert systkini – verð fyrir 2 yrði því 9.000 kr. Viðskiptavinir Landsbankans fá 1.500kr afslátt í Íþróttaskólann og borga því einungis 3.500 kr fyrir hvert barn, ef þeir millifæra af reikningi sem hýstur er hjá Landsbankanum. Ekki er hægt að fá Landsbanka- og systkinaafslátt saman.

Foreldrar taka virkan þátt í tímum með því að aðstoða börnin sín. Þar með gefst þeim mikilvægt tækifæri að kynnast börnum sínum enn betur við aðrar aðstæður en venjulega. Greiðsluupplýsingar verða sendar fljótlega eftir skráningu. Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband við okkur í gegnum netfangið shi@hi.is.

Tilnefningar Stúdentaráðs kjörnar ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ, er nýr ungmennafulltrúi á sviði sjálfbærrar þróunar

Á 3. leiðtogaráðsfundi LUF í nóvember hlaut Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ, kjör sem ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar.

Rebekka er með BA-gráðu í lögfræði en hefur einnig stundað nám í líffræði. Þá hefur hún m.a. einnig starfað sem landvörður og laganemi meðfram námi ásamt því að sinna stjórnarstörfum hjá Ungum umhverfissinnum og Náttúruverndarsamtökum Austurlands. Hún hefur því mikla reynslu af hagsmunabaráttu ungs fólks og sjálfboðaliðastörfum.

Í framboðsræðu sinni talaði Rebekka um hversu mikilvægt er að rödd ungs fólks fái að heyrast sem víðast. Hún ætlar að leita leiða til að virkja fleiri með sér og heyra hvað ungmennum á Íslandi finnst eiga að leggja áherslu á í málaflokknum. Rebekka mun einnig beita sér fyrir því að fulltrúum ungmenna verði fjölgað í stöðum sem þessum til framtíðar þannig að rödd þeirra hljómi enn hærra.

Rebekka kemur til með að taka þátt í störfum ráðherrafundar Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2023), sem fram fer í New York 10. – 19. júlí, í umboði ungs fólks á Íslandi. Þá skipar hún einnig sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. 

Isabel Alejandra Díaz er nýr ungmennafulltrúi á sviði mennta, vísinda og menningar

Isabel Alejandra Díaz, tilnefning SHÍ, var á dögunum kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar. Leiðtogaráð Landssambands ungmennafélaga, LUF, kaus Isabel á 4. fundi ráðsins en þetta er í fyrsta skipti sem lýðræðislega er kjörið í stöðuna.

Isabel stundar meistaranám í opinberri stjórnsýslu ásamt því að vera með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur mikla reynslu og ástríðu fyrir málefnum ungs fólks, hagsmunastarfi og málefnavinnu. Hún gegndi embætti forseta Stúdentaráðs 2020-2022 og sat þá einnig í háskólaráði.

Hún hefur unnið að menningarmálum sem verkefnastjóri Tungumálatöfra, námskeiðs fyrir börn með ólíkan menningarbakgrunn til að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu. Isabel hefur einnig setið í ýmsum hópum á sviði mennta, menningar- og félagsmála t.a.m. samhæfingarhópi stjórnvalda um atvinnu- og menntaúrræði og samráðsvettvangi um jafnrétti kynjanna á vegum Jafnréttisráðs.

Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mennta, vísinda og menningar skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ og starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Þá sitja ungmennafulltrúar einnig í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf.   

Isabel kemur til með að sækja aðalráðstefnu UNESCO, sitja í Íslensku UNESCO nefndinni auk þess að sækja norræna samráðsfundi og sækja ungmennaþing UNESCO, í umboði ungs fólks á Íslandi. 

Stúdentaráð óskar Isabel og Rebekku til hamingju með kjörið og hlökkum við mikið til að fylgjast með þeim í þessum störfum!