Fréttir

Vilt þú vinna við að skipuleggja Októberfest 2023?

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir eftir áhugasömum og duglegum einstaklingi til að taka að sér hlutastarf á vegum SHÍ. Um er að ræða 30% tímabundna stöðu sem snýst alfarið um skipulagningu, markaðssetningu og framkvæmd á Októberfest. Starfstímabil hefst 24. júlí og lýkur 15. september.   

 

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið: 

  • Samskipti við verktaka 
  • Umsjón með markaðsmálum í samráði við SHÍ 
  • Almennt utanumhald um Októberfest af hálfu SHÍ 
  • Samantekt og skýrsla eftir hátíð

Hæfniskröfur: 

  • Reynsla af viðburðastjórnun 
  • Reynsla af markaðsstörfum 
  • Góð samskiptahæfni, skipulagshæfni og sjálfstæð vinnubrögð 
  • Áhugi og þekking á Stúdentaráði æskileg 

Einstaklingurinn er ráðinn í hlutastarf á meðan ráðningartímabilinu stendur. Nánari upplýsingar um starfið fást hjá réttindaskrifstofu Stúdentaráðs í síma 570-0850 eða á shi@hi.is  

 

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og lista meðmælenda skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: shi@hi.is merkt „Starfsmaður Októberfest SHÍ“. Umsóknarfrestur er til kl. 23:59 þann 16. júlí 2023. Umsóknir sem berast síðar verða ekki teknar til greina.  

Stúdentaráðsfundur 21. júní 2023

Miðvikudaginn 21. júní 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00  í stofu VHV-007

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Dagskrá fundarins:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
  2. Fundargerð Skiptafundar Stúdentaráðs 23. maí borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
  3. Eftirstandandi tilnefningar í nefndir og sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 17:10-17:15
  4. Tilkynningar og mál á döfinni 17:15-17:25
  5. Kynning á stefnu háskólans: HÍ26 frá Steinunni Gestsdóttur 17:25 – 17:40
  6. Fundarhlé  17:40 – 17:50
  7. Kynning um notendamiðaða stafræna þjónustu frá Guðnýju Benediktsdóttur 17:50 – 18:05
  8. Kynning og umræður um lækkun kosningaaldurs með LUF – Landssambandi ungmennafélaga 18:05-18:30
  9. Önnur mál 18:30-18:45
  10. Fundi slitið 18:45

Ársskýrsla Stúdentaráðs 2022-2023

Hverju starfsári Stúdentaráðs lýkur með skýrslugerð þar sem tekin eru saman helstu störf, verkefni, sigrar og ósigrar. Ársskýrsla Stúdentaráðs 2022-2023 var kynnt af fráfarandi forseta SHÍ, Rebekku Karlsdóttur, á skiptafundi Stúdentaráðs þann 23. maí sl. og er hún nú aðgengileg hér.  Stúdentar og önnur áhugasöm eru hvött til að glugga í skýrsluna enda gefur hún góða innsýn í það fjölbreytta starf sem unnið er innan Stúdentaráðs. Hér má síðan finna ársskýrslur fyrri ára fyrir áhugsöm ásamt því að útprentuð eintök má finna á skrifstofu Stúdentaráðs.

Í ávarpi forseta leggur Rebekka áherslu á mikilvægi hagsmunabaráttu stúdenta nú þegar stór mál eru til endurskoðunar í ráðuneyti háskólamála:

 

Stór og viðamikil mál sem varða háskólanna eru nú til endurskoðunar í nýju ráðuneyti háskólamála og ljóst er að þær breytingar sem ráðist verður í munu hafa mikil áhrif til framtíðar. Við höfum komið afstöðu stúdenta fram á vandaðan og áberandi hátt sem hefur vakið athygli í fjölmiðlum og nú reynir á að fylgja því eftir. Hagsmunabarátta stúdenta er ekki bara barátta þeirra sem eru í námi núna heldur er það barátta fyrir betra og jafnara samfélagi. Jafnt aðgengi að námi skiptir grundvallarmáli fyrir jöfnuð í samfélaginu og er víða pottur brotinn í þeim efnum hér á landi. Núverandi stuðningskerfi námsmanna uppfyllir ekki hlutverk sitt sem félagslegur jöfnunarsjóður og stúdentar lenda á milli annarra velferðarkerfa. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur, en sú er ekki raunin í núverandi kerfi. Tryggja þarf að hér séu til staðar vel fjármagnaðir og aðgengilegir opinberir háskólar þar sem þeir fá rými til að sinna sínu grundvallar hlutverki, sem er fyrst og fremst að skila þekkingu út í samfélagið.

 

 

Ráðning ritstjóra og alþjóðafulltrúa á skrifstofu Stúdentaráðs

Þau Nana Bruhn Rasmussen og Jean Rémi Chareyre hafa bæst í hóp starfsfólksins á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs.

Nana Bruhn Rasmussen hefur verið ráðin nýr alþjóðafulltrúi á skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Nana er 26 ára nemi í Íslensku sem öðru máli og hefur áður lokið BA og MA gráðum í lögfræði frá Syddansk Universitet í Óðinsvéum. Nana hefur reynslu af vinnu við alþjóðasamskipti, m.a. hjá danska sendiráðinu í Reykjavík og danska utanríkisráðuneytinu. Hún hefur reynslu af því að vera bæði skiptinemi og alþjóðanemi á Íslandi og hlakkar til að vinna með, og gæta hagsmuna, erlendra nemenda í Háskóla Íslands.

Jean-Rémi Chareyre hefur verið ráðinn nýr ritstjóri á skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Jean-Rémi er 37 ára mastersnemi í blaða- og fréttamennsku og hefur áður lokið meistaranámi í ensku við Stendhal háskóla í Grenoble í Frakklandi. Jean-Rémi hefur áður starfað við blaðamennsku hjá Heimildinni auk þess sem hann hefur starfað við bæði kennslu og ferðaþjónustu. Jean-Rémi hefur mikinn áhuga á háskólasamfélaginu og málefnum stúdenta.

Við óskum þeim til hamingju með þessi nýju störf og hlökkum til að vinna með þeim að bættum hag stúdenta!
Einnig gleður það okkur að tilkynna að Guðmundur Ásgeir Guðmundsson hefur verið endurráðinn framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og við hlökkum til að eiga áfram í góðu samstarfi við hann!

Stúdentaráð auglýsir eftir umsóknum í stjórn Félagsstofnunar stúdenta


Stúdentar eiga þrjá fulltrúa í stjórn Félagsstofnunar stúdenta sem sitja til tveggja ára í senn. Skipað var síðast í stjórn árið 2021 og er því kominn tími á að gera það aftur. Samkvæmt reglugerð fyrir Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands er stjórnin skipuð fimm einstaklingum til tveggja ára: mennta- og menningarmálaráðuneytið skipar einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa, háskólaráð skipar einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa og Stúdentaráð skipar þrjá aðalfulltrúa og þrjá varafulltrúa.  

Hæfniskröfur

  • Áhugi á Stúdentaráði og þekking á málefnum stúdenta
  • Reynsla af hagsmunabaráttu stúdenta er kostur 
  • Virk þátttaka í háskólasamfélaginu er kostur
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Geta til að tjáningar í ræðu og riti á íslensku 

 

Ætlast er til þess að umsækjandi stundi ekki nám við Háskóla Íslands á skipunartímanum og beri hag stúdenta og Félagsstofnunnar stúdenta fyrir brjósti. 

Kynningarbréf ásamt ferilskrá með upplýsingum um meðmælendur skal skila á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is. Samkvæmt 7. gr laga Stúdentaráðs skal hver fulltrúi ásamt varafulltrúa kjörinn sérstaklega og því eru umsækjendur beðnir um að gera grein fyrir varafulltrúa í umsókn sinni. Umsóknarfrestur er til 23:59 þann 11. júní 2023 og eru umsóknir sem berast eftir þann tíma ekki teknar gildar. 

Yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna hinsegin fræðslu innan Heilbrigðisvísindasviðs

Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir áhyggjum um skort á hinsegin fræðslu innan Heilbrigðisvísindasviðs og telur nauðsynlegt að hinseginfræðslu verði bætt við í skyldufög innan sviðsins, þá sérstaklega í grunnnámi læknis- og hjúkrunarfræði.

Árið 2022 voru gefnar út tvær skýrslur unnar af nemum HÍ sem fjalla um stöðu og réttindi trans og kvára á Íslandi. Önnur skýrslan, Kynjasamþætting út fyrir kynjatvíhyggjuna, unnin af Birtu B. Kjerúlf, er byggð á rannsókn hennar á stöðu réttinda trans fólks og kvára innan stjórnsýslu Íslands og hin skýrslan, „Að vera kvár á Íslandi: Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“, unnin af Birtu Ósk, fjallar um og gefur góða mynd á hver félagslega staða kvára er á Íslandi í dag. Báðar rannsóknir sýndu þær niðurstöður að trans og kynsegin fólk stendur frammi fyrir stórum áskorunum innan heilbrigðiskerfisins, og þá sérstaklega þegar kemur að þekkingarleysi heilbrigðisstarfsfólks. Niðurstöður úr báðum rannsóknum sýndu að kerfið vinnur ekki með trans og kynsegin fólki og að auknir fordómar og vanþekking innan heilbrigðisgeirans skili af sér lélegri þjónustu fyrir þennan hóp samfélagsins.

Mikilvægt er að brugðist verði við og ráðist sé á rót vandans, sem í grunninn er fáfræði og vanþekking heilbrigðisstarfsfólks, með því að byggja upp þekkingu strax í grunnnámi. Núverandi hinseginfræðsla er af skornum skammti og fer  nær einungis fram á þverfaglegum degi Heilbrigðisvísindasviðs, sem er haldinn innan sviðsins ár hvert þar sem nemendur úr ólíkum deildum innan sviðsins koma saman og fá kennslu um mismunandi efni. Þar er um klukkustundarlangur dagskrárliður sem heitir ,,margbreytileiki samfélagsins” þar sem farið er yfir hinseginleikann í stuttu máli  Ljóst er að þetta er langt frá því að vera næg fræðsla fyrir framtíðar starfsfólk heilbrigðiskerfisins.

Stúdentaráð telur því nauðsynlegt að hinseginfræðslu verði bætt við í kennsluskrá skyldufaga innan sviðsins, þá sérstaklega í grunnnámi læknis- og hjúkrunarfræði, og skorar á stjórn Heilbrigðisvísindasviðs að bregðast fljótt við. Með því að opna á umræður og auka fræðslu innan sviðsins er Háskólinn að stíga fram og taka eindregna afstöðu með trans einstaklingum í samfélaginu og tilverurétt þeirra. Háskóla Íslands ber samfélagsleg skylda til þess að vinna gegn mismunum og ein leið til að gera það er með aukinni fræðslu um jaðarsetta hópa og stöðu þeirra innan samfélagsins.

Stúdentaráðsfundur 23. maí 2023

Þriðjudaginn 23. maí fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í stofu HT-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Dagskrá fundarins:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
  2. Fundargerð Stúdentaráðsfundar 8. mars borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
  3. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2022-2023 17:10-17:20
  4. Ársskýrsla Stúdentaráðs 2022-2023 17:20-17:40
  5. Tillaga um um formlega aðgerðaáætlun Stúdentaráðs fyrir rektorskosningar (atkvæðagreiðsla) 17:40-17:45
  6. Bókfærð mál
  7. Nýtt Stúdentaráð 2023-2024 tekur við 17:45-17:50
  8. Fundargerð kjörfundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:50-17:55
  9. Praktísk atriði til nýrra Stúdentaráðsliða 17:55-18:15
  10. Fundarhlé 18:15-18:25
  11. Eftirstandandi tilnefningar í nefndir og sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:25-18:30
  12. Kynning frá fráfarandi Stúdentaráðsliða – ,,Það sem ég hefði viljað vita fyrir ári síðan” 18:30-18:40
  13. Almennar fyrirspurnir nýrra Stúdentaráðsliða 18:40-18:50
  14. Önnur mál 18:50 – 19:05
  15. Fundi slitið 19:10

Ályktun Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna byggðar í Nýja Skerjafirði

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna byggðar í Nýja Skerjafirði:

Skýrsla starfshóps sem innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar hefur nú loksins verið gefin út. Stúdentaráð fagnar því að niðurstaða skýrslunnar sé skýr um að ekki sé þörf á því að hætta við byggingaráform í Nýja Skerjafirði, heldur sé nóg að grípa til mótvægisaðgerða. 

Mikil aðsókn er á stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta (FS) og telur biðlistinn í dag tæplega 900 manns, sem er um helmingi meira en á sama tíma í fyrra. FS hefur unnið að því að stytta biðlista með stöðugri uppbyggingu síðustu ár en nú er staðan hins vegar sú að ef uppbygging í Skerjafirði tefst lengur eða fer ekki af stað mun FS ekki geta byrjað á nýju verkefni fyrr en árið 2025, þar sem FS hefur næst vilyrði fyrir lóðum árin 2025 og 2026. Stúdentaráð krefst þess að nú verði hlustað á sérfræðinga og að uppbygging verði ekki tafin enn frekar, enda er bráð þörf á áframhaldandi uppbyggingu stúdentagarða og sú staðreynd að stjórnmálafólk reyni að standa í vegi fyrir henni ólíðandi

Skerjafjörðurinn er einstaklega mikilvæg staðsetning fyrir stúdenta í grennd við háskólann, en þar hefur FS á áætlun að byggja allt að 107 íbúðir í Skerjafirði I, auk þess sem að skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu um úthlutun lóða í Skerjafirði II. Samkvæmt áætlunum FS eiga þar að rísa fjölskylduíbúðir. Fjölgun slíkra íbúða mun verða til þess að auka húsnæðisöryggi foreldra í námi og barna þeirra, en samkvæmt Eurostudent VI á um þriðjungur íslenskra stúdenta eitt barn eða fleiri.

Niðurstöður könnunar Eurostudent VII hafa sýnt að 43% stúdenta á Íslandi búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað og ríma þessar tölur við skýrslu Stúdentaráðs um stúdenta á húsnæðismarkaði. Aukið aðgengi að stúdentaíbúðum á hagstæðu verði er mikilvægur liður í að lækka þetta hlutfall og tryggja jafnara aðgengi að námi.

 

Matarspor er komið upp í Hámu á Háskólatorgi

Stúdentaráð fagnar! Matarspor er komið upp í Hámu á Háskólatorgi! 

Stúdentaráð átti frumkvæði að verkefninu og fylgdi því eftir, en Inga Huld, þáverandi Stúdentaráðsliði, lagði fram tillögu á Stúdentaráðsfundi í janúar 2022 þess efnis að Stúdentaráð myndi beita sér fyrir því að Matarspor yrði innleitt í HÍ, sem tekið var vel í af hálfu skólayfirvalda og Félagsstofnun Stúdenta sem sáu um innleiðinguna. 

Kolefnisfótsporið er reiknað fyrir heita matinn í Hámu og súpurnar og það sett í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda. Það er auðvelt að sjá muninn þar sem annar rétturinn og önnur súpan er alltaf vegan í Hámu. Næstu skref eru svo að birta upplýsingarnar á Uglu svo að þetta nái til allra á háskólasvæðinu.

Stúdentaráð fagnar því að þessi hugmynd hafi orðið að veruleika og hvetur stúdenta og starfsfólk til að kynna sér Matarsporið áður en máltíðin er valin.