Fréttir

Framlengdur umsóknarfrestur í stöðu ritstjóra

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur framlengt umsóknarfrestinn í stöðu ritstjóra Stúdentablaðsins.

Ritstjóri hefur yfirumsjón með útgáfu Akademíunnar sem gefin er út í byrjun skólaársins sem og Stúdentablaðsins sem gefið er út fjórum sinnum á skólaári, tvö blöð á hvoru misseri. Nánari tímasetning útgáfunnar fer eftir ákvörðun ritstjóra og skrifstofu Stúdentaráðs. Ritstjóri skipar í ritstjórn og stýrir störfum hennar. Hann sér um dreifingu á Stúdentablaðinu og er ábyrgur fyrir því að birta efni úr því á heimasíðu þess.

Ritstjóri aðstoðar við auglýsingasöfnun en framkvæmdastjóri Stúdentaráðs hefur yfirumsjón yfir henni sem og rekstri blaðsins.

Hæfniskröfur:

  • Þekking og áhugi á málefnum stúdenta
  • Reynsla af fjölmiðla- og/eða útgáfustörfum
  • Góð almenn tölvukunnátta
  • Gott vald á íslenskri og enskri tungu
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
  • Vilji til að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsfólki skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins
  • Reynsla af grafískri hönnun er kostur
  • Þekking á vefumsjón er kostur
  • Menntun sem nýtist er kostur

Ritstjóri er ráðinn í 20% vinnu yfir tímabilið 1. júní 2023 til 1. september 2023 og eykst þá hlutfallið í 30% yfir tímabilið 1. september 2023 til 31. maí 2024. Upphaf starfstíma getur þó verið sveigjanlegur eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar um starfið má fá hjá Lísu Margréti Gunnarsdóttur, núverandi ritstjóra Stúdentablaðsins, á netfangið studentabladid@hi.is

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og upplýsingum um umsagnaraðila skal skila í gegnum tölvupóst á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is merkt „Ritstjóri 2023-2024“. Umsóknarfrestur er til og með 7. maí nk. Auk þess er æskilegt að sýn umsækjanda á Stúdentablaðinu og hugmyndir um útgáfur á starfstímabilinu komi fram sem og sýnishorn af vinnu sinni ef viðkomandi hefur gengt ritstörfum áður.

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir í stöðu alþjóðafulltrúa og ritstjóra fyrir starfsárið 2023-2024

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir eftir umsóknum í stöður alþjóðafulltrúa og ritstjóra. Um er að ræða launuð störf á skrifstofu Stúdentaráðs.

Á skrifstofunni starfar fjórir kjörnir fulltrúar; forseti í fullu starfi, varaforseti, hagsmunafulltrúi og lánasjóðsfulltrúi í hlutastarfi sem kosin voru á kjörfundi ráðsins sl. miðvikudag. Skrifstofan ræður að auki til sín framkvæmdastjóra, ritstjóra Stúdentablaðsins og alþjóðafulltrúa. Nánar má lesa um starfsemi skrifstofunnar hér.

Umsóknarfrestur í báðar stöður er til og með 1. maí 2023. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar. Nánari upplýsingar um stöðurnar er að finna hér að neðan:

Alþjóðafulltrúi

Alþjóðafulltrúi hefur yfirumsjón með framkvæmd þjónustu skrifstofu Stúdentaráðs fyrir erlenda nemendur og hefur það hlutverk að gæta hagsmuna þeirra, auðvelda þeim að gerast virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu, svara fyrirspurnum og veita aðra aðstoð.

Alþjóðafulltrúi er trúnaðarfulltrúi erlendra nemenda við Háskóla Íslands og skal veita viðtöl, símaþjónustu og svara tölvupóstum eftir þörfum þeirra. Í samvinnu við skrifstofu alþjóðasviðs hefur alþjóðafulltrúi milligöngu um að verða erlendum nemendum úti um tengilið (mentor) úr hópi nemenda Háskóla Íslands. Þá aðstoðar alþjóðafulltrúi skrifstofu alþjóðasviðs við skipulagningu viðburða, s.s móttöku erlendra nemenda og Alþjóðadaga Háskóla Íslands. Auk þess er alþjóðafulltrúi forseti alþjóðanefndar Stúdentaráðs og tekur þátt í daglegum störfum skrifstofu Stúdentaráðs í samráði við forseta ráðsins.

Alþjóðafulltrúi starfar einnig sem fulltrúi stúdenta innan alþjóðlega samstarfsnetsins Aurora. Hann hefur umsjón með verkefnum þar, starfar með tengiliðum Aurora innan Háskóla Íslands og aðstoðar við verkefni sem þau fela honum. Hann sér einnig um undirbúning fyrir ráðstefnur og fleiri viðburði tengdum Aurora og tekur þátt eins og við á.

Hæfniskröfur:
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt 
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Geta til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku
  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta auk virkrar þátttöku í háskólasamfélaginu
  • Þekking og reynsla af alþjóðastarfi er kostur
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur
  • Þekking á Aurora samstarfsnetinu er kostur
  • Reynsla af viðburðastjórnun er kostur
  • Önnur tungumálakunnátta er kostur
  • Reynsla af stefnumótun er kostur

Staða alþjóðafulltrúa er 50% starf og er hann ráðinn til eins árs með möguleika á áframhaldandi starfi. Viðkomandi þarf að geta hafið störf 1. júní 2023. Nánari upplýsingar um starfið má fá hjá Ölmu Ágústsdóttur, núverandi alþjóðafulltrúa, á internationalcommittee@hi.is eða shi@hi.is.

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og upplýsingum um umsagnaraðila skal skila í gegnum tölvupóst á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is merkt „Alþjóðafulltrúi SHÍ 2022-2023.“

Ritstjóri

Ritstjóri hefur yfirumsjón með útgáfu Akademíunnar sem gefin er út í byrjun skólaársins sem og Stúdentablaðsins sem gefið er út fjórum sinnum á skólaári, tvö blöð á hvoru misseri. Nánari tímasetning útgáfunnar fer eftir ákvörðun ritstjóra og skrifstofu Stúdentaráðs. Ritstjóri skipar í ritstjórn og stýrir störfum hennar. Hann sér um dreifingu á Stúdentablaðinu og er ábyrgur fyrir því að birta efni úr því á heimasíðu þess.

Ritstjóri aðstoðar við auglýsingasöfnun en framkvæmdastjóri Stúdentaráðs hefur yfirumsjón yfir henni sem og rekstri blaðsins.

Hæfniskröfur:

  • Þekking og áhugi á málefnum stúdenta
  • Reynsla af fjölmiðla- og/eða útgáfustörfum
  • Góð almenn tölvukunnátta
  • Gott vald á íslenskri og enskri tungu
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
  • Vilji til að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsfólki skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins
  • Reynsla af grafískri hönnun er kostur
  • Þekking á vefumsjón er kostur
  • Menntun sem nýtist er kostur

Ritstjóri er ráðinn í 20% vinnu yfir tímabilið 1. júní 2023 til 1. september 2023 og eykst þá hlutfallið í 30% yfir tímabilið 1. september 2023 til 31. maí 2024. Upphaf starfstíma getur þó verið sveigjanlegur eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar um starfið má fá hjá Lísu Margréti Gunnarsdóttur, núverandi ritstjóra Stúdentablaðsins, á netfangið studentabladid@hi.is

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og upplýsingum um umsagnaraðila skal skila í gegnum tölvupóst á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is merkt „Ritstjóri 2023-2024“. Auk þess er æskilegt að sýn umsækjanda á Stúdentablaðinu og hugmyndir um útgáfur á starfstímabilinu komi fram sem og sýnishorn af vinnu sinni ef viðkomandi hefur gegnt ritstörfum áður.

Kjör á skrifstofu Stúdentaráðs 2023-2024

Rakel Anna Boulter var kjörin nýr forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) síðastliðinn miðvikudag. Kosningin fór fram á sérstökum kjörfundi ráðsins en réttindaskrifstofa og nýkjörið Stúdentaráð munu formlega taka til starfa eftir skiptafund undir lok maí.

Rakel Anna mun útskrifast með BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands í júní 2023. Hún hefur starfað sem landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði og Þingvallaþjóðgarði og starfað á skrifstofu Umhverfisstofnunnar. Þá útskrifaðist Rakel Anna frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2019.

Á síðastliðnu ári var Rakel Anna sviðsráðsforseti á Hugvísindasviði og sat því í stjórn Stúdentaráðs og stjórn Hugvísindasviðs. Rakel Anna var einnig forseti kennslumálanefndar Stúdentaráðs og sat sem fulltrúi stúdenta í kennslumálanefnd háskólaráðs. Hún hefur einnig setið í stjórn Landvarðafélagsins í tvö ár. 

 

„Stúdentaráð hefur verið á góðri vegferð síðustu ár og ég er spennt að leiða þá vinnu áfram. Það eru stór mál á dagskrá hjá ráðuneyti háskólamála þar sem mikilvægt verður að rödd stúdenta heyrist, svo sem við endurskoðun menntasjóðsins og heildræna yfirferð á fjármögnunarlíkani háskólanna. Það eru áhugaverðir tímar framundan í háskólasamfélaginu, sem á án efa eftir að taka drastískum breytingum vegna tilkomu gervigreindar. Í þessu felast ýmsar áskoranir en ekki síður tækifæri um breytta og bætta kennsluhætti og aukin gæði menntunar.“ segir Rakel Anna.

Á kjörfundi voru einnig kjörnir eftirfarandi fulltrúar á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs:

Varaforseti: Dagmar Óladóttir

Hagsmunafulltrúi: Rannveig Klara Guðmundsdóttir

Lánasjóðsfulltrúi: Gísli Laufeyjarson Höskuldsson

 

Á mynd frá vinstri: Rakel Anna, Dagmar, Gísli, Rannveig.

Langar þig að vera ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis eða loftslagsmála?

Staða ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis

Landssamband ungmennafélaga (LUF) í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og forsætisráðuneytið auglýsir eftir framboðum ungmenna á aldrinum 18-25 ára til að gegna stöðu ungmennafulltrúa Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis (e. United Nations Youth Delegate of Iceland on Gender Equality) í umboði íslenskra ungmenna. Fulltrúinn kemur til með að sitja í stýrihóp forsætisráðuneytisins um kynslóð jafnréttis og sækja viðburð á vegum The Commission on the Status of Women (CSW).

 

Staða ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála

Landssamband ungmennafélaga (LUF) í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir framboðum ungmenna á aldrinum 18-25 ára til að gegna stöðu ungmennafulltrúa Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála (e. United Nations Youth Delegate of Iceland on Climate Change) í umboði íslenskra ungmenna. Fulltrúinn kemur til með að sækja 28. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, sem fer fram í Dubai í desember 2023.

 

Stúdentaráð Háskóla Íslands er aðildarfélag að LUF og getur sem slíkt boðið fram einn fulltrúa í hvora stöðu í umboði Stúdentaráðs.

Ef þú ert nemandi við Háskóla Íslands getur þú sótt um að vera tilnefning SHÍ ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði: 

  1. Ert á aldrinum 18-25 ára 
  2. Hefur þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
  3. Hefur reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
  4. Býrð yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
  5. Hefur vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
  6. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur
  7. Hefur tök á að skuldbinda þig hlutverkinu til tveggja ára

Ef þetta á við um þig og þú vilt sækja um að vera tilnefning SHÍ, sendu okkur þá kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna þú sækir um stöðuna og hvernig þú telur þig uppfylla skilyrðin hér að ofan á shi@hi.is. Ef umsækjandi verður ekki talinn uppfylla skilyrði umsóknar verður henni vísað frá. Frestur er til og með 18. apríl nk. Leiðtogaráð LUF kýs svo á milli tilnefninga aðildarfélaganna á fundi ráðsins þann 26. apríl nk. 

Niðurstöður könnunar SHÍ um stöðu foreldra í námi

Könnun Stúdentaráðs um stöðu foreldra í námi var send út á alla nemendur Háskóla Íslands þann 19. apríl 2022. Ekki var hægt að beina henni að afmörkuðum markhóp þar sem engin gögn eru til um það hjá nemendaskrá HÍ hvaða stúdentar eru foreldrar. Fjölskyldunefnd Stúdentaráðs átti frumkvæði að könnuninni og starfsfólk skrifstofu Stúdentaráðs 2021-2022 aðstoðaði við framkvæmd hennar. Nefndin heldur úti eigin samfélagsmiðlum þar sem könnunin var auglýst, auk þess sem að nefndin er með lokaðan Facebook-hóp fyrir foreldra í námi þar sem leitast var eftir svörum. Stúdentaráð sendi út fjöldapóst á nemendur og hvatti til þátttöku ásamt því að deila könnuninni á sínum samfélagsmiðlum og heimasíðu Stúdentaráðs. 

Könnunin stóð opin til og með 28. apríl 2022 og barst 201 svar. Spurningarnar voru 57 talsins og spurt var um persónuhagi, fjárhagsstöðu og kennslumál, bæði á íslensku og ensku. Markmiðið var að kanna stöðu foreldra í námi, einkum í samhengi við Covid-19 og draga fram sjónarmið þessa hóps. 

Niðurstöðurnar sýna að foreldrum í námi reynist erfitt að sinna fjölskyldulífi og námi til jafns. Meirihluta foreldra í námi þykir fæðingarstyrkur námsmanna ekki sinna hlutverki sínu, foreldrar reyna jafnvel að komast hjá því að þiggja hann og í þeim tilfellum sem þau hafa nýtt sér hann er hann ekki nægur. Svarendur töldu barnastyrk Menntasjóðs námsmanna einnig ófullnægjandi. Þá sýndu niðurstöður könnunarinnar einnig að aukin viðvera barna á heimilinu vegna Covid-lokana og manneklu á skólum og leikskólum hafi haft neikvæð áhrif á námsárangur.

Nánar hér á pdf. formi

Kjörfundur Stúdentaráðs 19. apríl 2023

Kosningar til Stúdentaráðs fóru fram 22. og 23. mars sl. og má nálgast niðurstöður kosninga á heimasíðu ráðsins

Í kjölfar kosninga kýs Stúdentaráð sér fulltrúa til starfa á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs, ásamt því að kjósa í önnur embætti ráðsins á sérstökum kjörfundi. Kjörfundur verður haldinn 19. apríl kl. 17:00 í O-101. Fundir Stúdentaráðs eru opnir öllum skv. a-lið 9. gr. laga Stúdentaráðs. 

Mögulegt er að gefa kost á sér í embætti forseta, varaforseta, hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa á skrifstofu Stúdentaráðs. Einnig í fastanefndir og önnur embætti á vegum Stúdentaráðs. Þau sem kjörin eru á kjörfundi taka við störfum á skiptafundi, sbr. 4. gr. laga Stúdentaráðs. Kjörgengir til þessara embætta eru öll þau sem hafa verið skráð til náms við Háskóla Íslands á síðustu þremur árum, á undan sérstökum kjörfundi. 

Embætti sem kosið er í á skrifstofu Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:

  • Forseti Stúdentaráðs
  • Varaforseti Stúdentaráðs
  • Lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs
  • Hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs

Nefndir Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:

  • Fjórir fulltrúar skulu kjörnir í fjármála- og atvinnulífsnefnd, alþjóðanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, fjölskyldunefnd, félagslífs- og menningarnefnd og lagabreytinganefnd.
  • Tveir fulltrúar eru kjörnir í nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd.
  • Fimm fulltrúar eru kjörnir í jafnréttisnefnd, einn frá hverju fræðasviði, og taka þeir aðilar jafnframt sæti í jafnréttisnefnd hvers sviðs.

Á kjörfundi hafa einungis nýkjörnir fulltrúar Stúdentaráðs atkvæðisrétt. Gefi fleiri kost á sér en kosið er um ræður hlutfallskosning. Séu fleiri en einn í framboði í tiltekinni kosningu, hlýtur sá einstaklingur sem fær flest atkvæði embættið, svo sá sem þar eftir kemur og koll af kolli.  

Tilnefningar í embætti skal skila til fundarstjóra sem er jafnframt forseti Stúdentaráðs, Rebekku Karlsdóttur, fyrir kjörfund á shi@hi.is eða á fundinum sjálfum. 

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti á shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. 

Fundardagskrá

  1. Fundur settur
  2. Kjör forseta Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  3. Kjör varaforseta Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  4. Kjör hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  5. Kjör lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  6. Tilnefningar fylkinga í sviðsráð 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  7. Tilnefningar fylkinga í nefndir Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  8. Kjör Aurora fulltrúa Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla)
  9. Kjör varafulltrúa í Stúdentaráð 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  10. Tilnefningar fylkinga til Háskólaþings 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  11. Önnur mál 

Viðbrögð Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna úthlutunarreglna Menntasjóðs námsmanna 2023-2024

Úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2023-2024 hafa verið samþykktar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hér að neðan er að finna viðbrögð Stúdentaráðs við úthlutunarreglunum:

Aukinn sveigjanleiki fyrir foreldra

Stúdentaráð fagnar því að tekið hafi verið mið af ábendingum lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs í stjórn Menntasjóðsins um aukið svigrúm foreldra í námi hvað varðar kröfur um lágmarks námsárangur. Svigrúm vegna barneigna hefur nú verið aukið úr 16 einingum í 22 einingar auk þess sem að hvort foreldri um sig á nú rétt á 22 eininga svigrúmi, en áður fyrr þurftu foreldrar að skipta því sín á milli. Með þessum breytingum geta foreldrar í námi tekið hlé frá námi í eina önn án þess að námslán þeirra komi til skerðingar.  Þetta stóraukna svigrúm er til þess fallið að auka fjárhagslegt öryggi foreldra í námi og draga úr óvissu. Það er því óhætt að segja að um sé að ræða mikla hagsbót fyrir foreldra í námi. Stúdentaráð telur mikilvægt að haldið sé áfram á þessari braut, til að mynda mætti koma betur til móts við foreldra eftir fyrsta ár barns og veita þeim hópi aukið svigrúm.

Grunnframfærsla og viðbótarlán vegna húsnæðis

Stúdentaráð lýsir yfir vonbrigðum yfir því að grunnframfærslan hafi einungis tekið vísitöluhækkun en ljóst er að hún hefur til lengri tíma verið of lág og þrátt fyrir 18% hækkun á síðasta ári þá dugar hún enn ekki til að standa straum af raunverulegum framfærslukostnaði hér á landi, þvert á fyrirmæli 2. mgr. 2. gr. laganna. Þrátt fyrir að húsnæðisgrunnur taki einnig vísitöluhækkunum þá byggir hann eftir sem áður á leiguverði á stúdentagörðum. Einungis um 11-12% stúdenta búa á görðunum og því er ljóst grunnurinn tekur ekki mið af raunverulegum aðstæðum meirihluta stúdenta. Þar að auki hefur grunnurinn ekki hækkað til lengri tíma og hefur því engan veginn haldið í við þróun leiguverðs á hinum almenna markaði.

Frítekjumarkið

Þá veldur það einnig vonbrigðum að ekki hafi verið tekið mið af kröfum fulltrúa stúdenta í stjórn sjóðsins um tvískiptingu frítekjumarksins að norrænni fyrirmynd. Í þessu samhengi er vert að minnast á þá staðreynd að frítekjumarkið hér á landi er það lægsta á Norðurlöndum en ljóst er samspil lágrar grunnframfærslu og lágs frítekjumarks getur haft alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér fyrir lántaka sem lenda í vítahring vinnu og of lágra námslána.

Þörf á breytingum

Stúdentaráð hefur ítrekað bent á vankanta þess fyrirkomulags að sjóðsstjórn sé falið að ákvarða upphæðir framfærslu- og viðbótarlána vegna húsnæðis. Til marks um þá vankanta er fyrst og fremst sú staðreynd að námslán hafa verið of lág svo árum skiptir. Menntasjóður námsmanna uppfyllir ekki hlutverk sitt sem félagslegur jöfnunarsjóður í núverandi mynd. Stúdentaráð bindur vonir við að tekið verði tillit til ofangreindra þátta í framhaldinu og sérstaklega við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna sem nú stendur yfir.  Mikilvægt breytingar á kerfinu verði gerðar með þarfir og hagsmuni stúdenta að leiðarljósi.

 

Íþróttaskóla SHÍ 2023 lokið í bili

Síðasti tíminn í bili

Síðasti tími Íþróttaskólans var laugardaginn 1. apríl en tímarnir voru alls 7 og hófust í byrjun febrúar á laugardagsmorgnum. Það var búningaþema og krakkarnir höfðu rosalega gaman að því að mæta og sprikla saman. Eftir tímann voru allir mjög duglegir að hjálpa til við að ganga frá en sú hefð – að hjálpa umsjónarmönnum að ganga frá – myndaðist í þessari lotu hjá eldri hópnum. Sumum börnum þótti meira spennandi að ganga frá en að leika í þrautabrautinni 😊. Við erum ótrúlega stolt af þessu verkefni og getum ekki beðið eftir að sjá alla aftur leika í salnum.

Ofurvinirnir Arngrímur og Breki tryggðu öryggi bekkjarfélaga sinna

Hvað er Íþróttaskóli SHÍ?

Íþróttaskóli SHÍ er verkefni sem gefur stúdentum við HÍ tækifæri á að koma með börnin sín að leika í þrautabraut til að tengjast börnunum betur og efla þeirra hreyfi- og félagsþroska gegn afar vægu gjaldi. Tímarnir fara fram í Íþróttahúsi Háskóla Íslands við hliðina á Háskólatorgi. Það er alltaf boðið upp á létta hressingu eftir hvern tíma. Snillingarnir frá Holle voru svo væn að styrkja okkur um skvísur sem yngri börnin elskuðu.

Sjaldan verið jafn vinsæll

Þessa önnina fylltust báðir hóparnir eftir einn fjöldapóst sem sýnir hversu vinsælt og mikilvægt verkefnið er. Það ríkir gríðarleg ánægja meðal foreldra/forráðaaðila og barna með Íþróttaskólann sem við vonum að haldi áfram næstu annir. Við erum gríðarlega stolt af þessu verkefni og við viljum þakka öllum börnum og aðstandendum kærlega fyrir þátttökuna og samveruna þessa önnina!

Opið fyrir umsóknir í fjórðu úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í fjórðu og síðustu úthlutun Stúdentasjóðs skólaárið 2022-2023.

Umsóknareyðublað er að finna hér. Við viljum hvetja til þess að umsóknareyðublaðið sé eins vel útfyllt og kostur er, umsóknum sem uppfylla ekki skilyrði verður vísað frá. Einnig hvetjum við til þess að umsækjendur kynni sér sérstaklega lög og verklagsreglur sjóðsins áður en sótt er um. 

Við vekjum athygli á því að greniningarstyrkir og framfærslustyrkir eru veittir í þessari úthlutun. 

Tekið er við umsóknum til kl. 12:00 þriðjudaginn 11. apríl 2023. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Niðurstöður Stúdentaráðskosninga 2023

Kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands fóru fram dagana 22. og 23. mars. Heildarkjörsókn var 32,54%. Nýtt Stúdentaráð tekur við á skiptafundi ráðsins í lok maí og hlutu eftirfarandi aðilar kjör í Stúdentaráð:

Félagsvísindasvið:

  • Arna Dís Heiðarsdóttir (Röskva)
  • Daníel Hjörvar Guðmundsson (Vaka)
  • Emilía Björt Írisard. Bachmann (Röskva)
  • Júlíus Viggó Ólafsson (Vaka)
  • Kristmundur Pétursson (Röskva)

Heilbrigðisvísindasvið:

  • Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsd. (Röskva)
  • Daníel Thor Myer (Röskva)
  • Elísabet Sara Gísladóttir (Vaka)

Menntavísindasvið:

  • Júlíana Dögg Önnudóttir Chipa (Vaka)
  • Tanja Sigmundsdóttir (Röskva)
  • Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir (Röskva)

Verkfræði- og náttúruvísindasvið:

  • María Rós Kaldalóns (Röskva)
  • Davíð Ásmundsson (Röskva)
  • Eiður Snær Unnarsson (Vaka)

Hugvísindasvið:

  • Guðni Thorlacius (Röskva)
  • Júlía Karín Kjartansdóttir (Röskva)
  • Steinunn Kristín Guðnadóttir (Röskva)

Ítarlegri niðurstöður kosninga er að finna hér.